Innlent

Flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki urðu að óþörfu fyrir hundruð milljarða tjóni í Eyjafjallagosinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Jónas Elíasson prófessor í verkfræði segir galla í líkönum veðurfræðinga sem lágu til grundvallar þess að flugfélög í heiminum urðu fyrir ríflega 200 milljarða tjóni árið 2010. Alger óþarfi hafi verið að stöðva alþjóðlegt flug vegna eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010
Jónas Elíasson prófessor í verkfræði segir galla í líkönum veðurfræðinga sem lágu til grundvallar þess að flugfélög í heiminum urðu fyrir ríflega 200 milljarða tjóni árið 2010. Alger óþarfi hafi verið að stöðva alþjóðlegt flug vegna eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010
Algerlega ástæðulaust var að lama meira og minna allt flug í Evrópu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli að mati rannsóknarprófessors við Háskóla Íslands sem vinnur að alþjóðlegri rannsókn á dreifingu eldfjallaösku. Flugfélög og ferðaþjónustuaðilar töpuðu hundruð milljarða vegna stoppsins.

Talið er flugfélögin í heiminum hafi tapað ríflega tvö hundruð milljörðum króna vegna þeirrar röskunar sem varð á alþjóðaflugi innan og til og frá Evrópu í Eyjafjallagosinu árið 2010. En um 107 þúsund fluferðum var þá aflýst á átta dögum, vegna viðvörunar veðurfræðinga í Evrópu um dreifingu össtróks frá gosinu.

Jónas Elíasson rannsóknarprófessor í verkfræði við Háskóla Íslands hefur unnið að alþjóðlegri rannsókn á dreifingu ösku við Háskólann í Kyoto í Japan undanfarin tvö ár og segir rannsóknina leið í ljós galla í þeim líkönum sem stuðst hefur verið við. Þannig hafi líkönin gert ráð fyrir að öskuskýið frá Eyjafjallajökli væri allt að 40 sinnum breiðara en það í raun og veru var.

Þá hefðu áhrifin á alþjóðlegt flug orðið miklu, miklu minni en þau voru?

„Já þau hefðu eiginlega engin verið. Ég á heldur ekki von á því ef gos eins og Eyjafjallajökuls gosið kemur aftur núna að áhrifin af því verði eins mikil,“ segir Jónas.

Hann voni að þeir sem geri spárnar á veðurstofunni í Bretlandi hafi lagað líkön sín eitthvað þótt hann hafi ekki séð það.

„En mér finnst einhver veginn að þær umræður sem farið hafa fram í sambandi við þetta bendi til þess að menn verði meira sjálfráðir í framtíðinni og muni þá fljúga þar sem ekki er nein sýnileg aska,“ segir Jónas.

Eins og áður sagði var tjón flugfélaganna metið á ríflega 200 milljarða króna og þá er ekki talið tjón flugvalla og annarra ferðaþjónustuaðila sem einnig skiptir tugum eða hundruðum milljarða.

Þannig að þú ert að segja að þetta tjón hefði ekki þurft að eiga sér stað?

„Já, já það hefði ekki þurft að eiga sér stað og það eru fjöldamargir sem hafa bent á það,“ segir Jónas Elíasson prófessor í verfræði sem flytur fyrirlestur um málið í Háskóla Íslands á föstudag og er hann opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×