Innlent

Segir óþolandi að verslunarmenn geti blekkt neytendur

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra. mynd/pjetur
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra ætlar að beita sér fyrir því að reglur um upprunamerkingar landbúnaðarafurða taki gildi sem fyrst.

Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands fer hörðum orðum um það sem hann kallar blekkingarleik við sölu búvara í viðtali við Bændablaðið í dag. Sindri vísar í þessu samhengi til frétta um að íslensk fyrirtæki hafi blandað erlendu hráefni saman við framleiðslu íslenskra bænda. Hann krefst þess að reglur um upprunamerkingu verði innleiddar strax til að neytendur fái allar nauðsynlegar upplýsingar.

Fram kemur í Bændablaðinu að slíkar reglur eigi að taka gildi í desember á þessu ári í samræmi við ákvæði EES-samningsins en Sindri vill að gildistökunni verði flýtt.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra segist ætla beita sér fyrir því.

„Það er verið að vinna að frumvarpi um upprunamerkingar sem tekur reyndar ekki á öllu þessu en svona tengdum hlutum. Það hefur líka verið af hálfu þingmanna Framsóknarflokks verið lagt fram frumvarp sem byggir á því að upprunamerkja íslenska framleiðslu. Ég tek bara undir það að það sé mjög skynsamlegt og nauðysnlegt að taka upp þessar reglur og það er engin þörf á því að bíða eftir því að Evrópusambandið innleiði þær," segir Sigurður Ingi.

Sigurður segir eðlilegt að neytendur geti aflað sér upplýsinga um uppruna matvæla.

„Það hefur lengi verið skoðun mín að það sé algjörlega óþolandi að iðnaðurinn eða verslunin geti blekkt neytendur. Það er nauðsynlegt að neytendur geti gengið að því vísu ef þeir eru að kaupa íslenska vöru að hún sé íslensk,“ segir Sigurður Ingi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×