Innlent

Hryssur Lilju Pálma drápust vegna eitrunar í heyi

myndir úr safni
Fjórar hryssur drápust vegna eitrunar í heyi á bæ Lilju Pálmadóttur á Hofi í Skagafirði nú í janúar. Líkur benda til að um hræeitrun hafi verið að ræða.

Lífshættuleg eitrun getur myndast í heyi ef dýr drepst í innpakkaðri heyrúllu, þar sem fyrir er raki og tiltekin baktería úr jarðvegi. Eitrið er lyktarlaust og er munurinn á heyinu er ekki sýnilegur. Á rigningasömum sumrum eykst hættan á að slíkar aðstæður myndist, þar sem erfiðara reynist að þurrka heyið.

Heyið af túninu sem hrossin átu eru til skoðunar hjá sérfræðingum. Enn ríkir hætta á eitrun á bænum, en eitrunin kemur fram um það bil tíu dögum frá því að hrossin fá heyið.

Lilja Pálmadóttir og fjölskyldan á Hofi átti þrjár af hryssunum en Bjarni Þórisson bóndi á Mannskaðahóli var eigandi einnar. Allar hryssurnar voru tamdar og góðir reiðhestar sem hafa átt folöld síðustu ár, segir á vef Hestafrétta.

Í samtali við Vísi kvaðst Lilja miður sín vegna atburðarins og baðst undan viðtali vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×