Innlent

Viti sínu fjær af áhyggjum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslenskur maður var á Þorláksmessu dæmdur í ellefu mánaða fangelsi í Kína, ekkert hefur spurst til hans eftir að dómurinn féll og segist bróðir hans vera viti sínu fjær af áhyggjum.

Maðurinn heitir Geir Gunnarsson og er þrjátíu og eins árs. Hann hefur verið búsettur í borginni Dailan í Kína síðastliðinn tólf ár ásamt bróður sínum þar sem þeir störfuðu á skemmtistað.

Í janúar 2013 lenti Geir í deilum við leigubílstjóra og sagði hann reyna að rukka hann of mikið fyrir leið sem Geir hafði margoft farið. Geir lét leigubílstjórann hafa það sem hann taldi vera eðlilegt verð og fór út úr bílnum. Leigubílstjórinn fór á eftir honum og reif í hann með þeim afleiðingum að jakki hans rifnaði. Þá sló Geir bílstjórann kjaftshöggi. Í kjölfarið komu fjórir lögreglumenn, handtóku Geir og tóku af honum vegabréfið.

Bílstjórinn höfðaði mál og nú á Þorláksmessu féll dómur. Arnar Gunnarsson, bróðir Geirs, segir dóminn hafa komið sér í opna skjöldu, þar sem yfirleitt nægi að borga sektir í slíkum málum. Geir fékk aðeins eitt símtal áður en hann hóf afplánun og hefur fjölskylda hans ekki fengið neinar fréttir af honum síðan.

„Maður er náttúrlega bara viti sínu fjær. Við getum ekki hringt í hann, sent honum bréf eða föt. Við höfum ekki hugmynd um hvernig við getum komist í samband við hann. Geir er einn í einhverju fangelsi þar sem enginn skilur hvað hann segir,“ segir Arnar.

Faðir Geirs og Arnars er staddur í Kína og hefur verið að vinna í málinu ásamt Stefáni Skjaldarsyni, sendiherra Íslands þar í landi, en fjölskyldan vill áfrýja dómnum. Þá hefur Utanríkisráðuneytið óskað eftir leyfi frá kínverskum fangelsismálayfirvöldum til að heimsækja Geir, en engin svör hafa borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×