Innlent

Hafa þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er uppi í samgöngum Eyjamanna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa sent frá sér ályktun til þingmanna.
Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa sent frá sér ályktun til þingmanna.
Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa sent frá sér ályktun til þingmanna, ráðherra og fréttamanna þar sem þau lýsa yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í samgöngumála Eyjamanna.

Isavia tók þá ákvörðun á dögunum að loka flugvellinum í Vestmannaeyjum á laugardögum, að minnsta kosti til loka aprílmánaðar.

Þetta hefur það í för með sér að á laugardögum verða líklega engar samgöngur til og frá Vestmannaeyjum, því kjarabarátta áhafnar Herjólfs felur í sér yfirvinnubann og siglir báturinn því ekki um helgar og afar langt ber á milli í kröfum áhafnarinnar og tilboði rekstraraðila Herjólfs.

Hér að neðan má lesa ályktunina:

Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er uppi í samgöngum Eyjamanna. Öllum hlýtur að vera ljóst að það gengur ekki að loka heilu byggðarlagi án þess að það hafi varanlegar eða langvarandi afleiðingar.

Sú pattstaða sem nú er komin í kjaradeilu undirmanna Herjólfs og rekstraraðila Herjólfs eykur ekki á bjartsýnina um að samningar náist í nánustu framtíð. Á meðan blæðir heilu samfélagi og ljóst er að áhrif deilnanna leggjast þungt á ferðaþjónustuna í Eyjum.

Ferðamálasamtök Vestmannaeyja skora á deiluaðila að endurskoða sýn sína á verkfallið og krefjast þess jafnframt að Alþingi tryggi rétt okkar Eyjamanna til að ferðast um þjóðveg okkar óháð kjaradeilum launþega og vinnuveitenda.

Fyrir hönd stjórnar  Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja, Kristín Jóhannsdóttir - Ferða- og markaðsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×