Innlent

Efla þarf húsnæðisúrræði og einfalda félagslega kerfið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Áslaug Friðriksdóttir vill að einkaaðilar fái að hefja uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík.
Áslaug Friðriksdóttir vill að einkaaðilar fái að hefja uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík. Mynd/Kristinn Magnússon
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir erfitt fyrir fólk að komast út úr félagslega kerfinu.

„Fólk verður óöruggt um að geta ekki aflað tekna ef það missir bæturnar,“ segir Áslaug og tekur þannig undir orð Bjarkar Vilhelmsdóttur sem sagði marga festast í fátæktargildru Fréttablaðinu í gær.

Áslaug segir lausnina fólgna í einfaldara félagslegu kerfi, því að hátt flækjustig búi frekar til fátæktargildrur.

„Í stað þess að hafa sérstakar húsaleigubætur og félagsíbúðir fyrir þá sem eru með minnstu tekjurnar þyrfti að vera hærri almennar húsaleigubætur sem koma til móts við tekjuleysið. Þá komumst við hjá því að flokka fólk innan félagslega kerfisins.“

Áslaug segir að til þess að þessi leið sé greið þurfi að vera nóg framboð af leiguhúsnæði og að lítið þurfi annað en pólitískan vilja til að hefja uppbyggingu.

„Einkaaðilar bjóða þrjátíu fermetra íbúðir á 80 þúsund á mánuði á meðan sambærilegar félagsíbúðir eru á 60 til 100 þúsund krónur, sem sagt samkeppnishæft verð. Meirihluti borgarstjórnar tefur þetta brýna húsnæðismál með miðstýringu á verkefninu og nefndarstörfum, en ætti þess í stað að ræða við einkaaðilana sem hafa kunnáttuna og lausnirnar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×