Innlent

Fékk nafnið Joð formlega samþykkt

Nafnið hefur mikla þýðingu fyrir Tómas. Hann er sonur fjölmiðlamannsins Þorsteins J. Vilhjálmssonar.
Nafnið hefur mikla þýðingu fyrir Tómas. Hann er sonur fjölmiðlamannsins Þorsteins J. Vilhjálmssonar. Vísir/aðsent
Knattspyrnukappinn Tómas Joð Þorsteinsson vann einn af sínum stærstu sigrum ævinnar, að eigin sögn, þegar hann fékk millinafnið Joð samþykkt af mannanafnanefnd í gærkvöldi.

Nafnið hefur mikla þýðingu fyrir Tómas. Hann er sonur fjölmiðlamannsins Þorsteins J. Vilhjálmssonar. „Pabbi byrjaði að nota Joð og ég fékk þetta þaðan. Ég held að þetta hafi byrjað þegar við bjuggum erlendis á mínum yngri árum. Síðan hef ég alltaf verið kallaður Tómas Joð,“ segir hann.

Tómas var skíður án millinafns. „En síðan tók ég þetta upp. Ég fór svo fyrir fimm vikum síðan niður í þjóðskrá og sótti um að fá þetta nafn viðurkennt. Í gærkvöldi barst mér svo tölvupóstur og var tjáð að nafnið hafi verið samþykkt, sem er mikið fagnaðarefni.“

Einn af stærstu sigrum ævinnar?

„Já, einn af þeim stærstu, ekki spurning,“ segir Tómas og hlær.

Bauð vinum sínum í mat

Tómas hafði boðið nokkrum vinum sínum í mat í gærkvöldi, án tilefnis. „En svo fékk ég tölvupóstinn og þá fékk þetta matarboð góðan tilgang og matarboðið varð ennþá skemmtilegra,“ segir Tómas Joð, sem segir samt ekki útilokað að hann haldi enn frekar upp á sigurinn.

„Partí hafa verið haldin af minna tilefni. Það er aldrei að vita hvað maður gerir. En það verður ekkert á næstunni. Ég er á leið í keppnisferð norður og síðan til Spánar í æfingaferð,“ segir knattspyrnukappinn Tómas sem leikur með Fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×