Innlent

Víða ófært á vegum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.
Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.
Samkvæmt ábendingu frá veðurfræðingi munu skil fara yfir landið á morgun með SA hvassviðri og úrkomu en þetta.

Á fjallvegum sunnan og vestanlands mun snjóa og þannig má reikna með nokkuð dimmri ofanhríð á Hellisheiði og í Þrengslum frá því seint í nótt og þar til kemur fram á morguninn.

Á Vesturlandi er snjóþekja og snjókoma á norðanverðu Snæfellsnesi og á Fróðárheiði og Vatnaleið. Snjóþekja og éljagangur er svo á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði en hálka á Svínadal.

Á Vestfjörðum er ófært á Steingrímsfjarðarheiði og þungfært og skafrenningur á Þröskuldum. Óveður er á Hjallahálsi og stórhríð og þæfingsfærð á Klettshálsi. Snjóþekja og skafrenningur er á Kleifaheiði og Hálfdán en þæfingur á Mikladal. Snjóþekja og skafrenningur er á Gemlufallsheiði og í Súgandafirði.

Þungfært er norður í Árneshrepp. Norðvestanlands er nú víða éljagangur eða snjókoma og krapi á vegum á láglendi en snjóþekja og skafrenningur á fjallvegum. Snjóþekja og éljagangur er víða í Skagafirði og á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði en annars víða hálka eða hálkublettir á vegum. Þungfært er á Hólasandi og í Hófaskarði en ófært Í Hófaskarði. Éljagangur er í Eyjafirði, við Mývatn og við norðausturströndina.

Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Á Austurlandi er nú ófært og Fjarðarheiði og á Vatnskarði eystra. Þungfært og skafrenningur er á Oddskarði en éljagangur og snjóþekja eða krapi frá Reyðarfirði að Breiðdalsvík. Hálkublettir eru svo víða við suðausturströndina.

Nú þegar frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Þeir sem hyggja á fjallaferðir eru beðnir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×