Innlent

Sóttu veikan mann af Vatnajökli

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/vilhelm
Björgunarsveitir á Austurlandi sóttu í gær veikan mann á Vatnajökul en maðurinn var í hópi sem hugðist þvera jökulinn frá Snæfelli til Grímsvatna.

Eftir að leiðangursmenn ráðfærðu sig við lækni símleiðis var ákveðið að koma hópnum til byggða og var farið á jökulinn frá Héraði, Seyðisfirði, Breiðdalsvík og Höfn, á fimm jeppum og tveimur vélsleðum.

Veður og færð voru slæm og nokkuð um nýfallinn snjó. Hópurinn var vel búinn og í símasambandi og væsti ekki um hann á meðan beðið var aðstoðar.

Rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi barst tilkynning frá Landsbjörgu um að björgunarsveitin Eining á Breiðdalsvík væri á leið af jöklinum með manninn.

Ástand hans hafði þá versnað frá því fyrr um daginn en samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi í morgun var hann þó ekki þungt haldinn.

Læknir hélt til móts við hópinn en erfiðar aðstæður á jöklinum gerðu björgunarmönnum erfitt fyrir og komst Björgunarfélagið á Höfn, sem hafði lyf fyrir manninn, til dæmis ekki að hópnum.

Farið var með manninn til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Austurlands og mun hann ná bata.

Erilsamt var hjá Björgunarsveitum á Austurlandi síðla dags í gær því auk þessa verkefnis sinntu þær ófærðaraðstoð þar sem fjöldi ökumanna lenti í erfiðleikum á Fjarðarheiði, í Oddskarði, á Hárekstrarleið, við Biskupsháls og í Bólstaðarhlíðarbrekku.

Eins og sagði í fyrri frétt af málinu tóku fjórar björgunarsveitir af Austurlandi tekið þátt í þessari aðgerð frá klukkan 17 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×