Íslenski boltinn

"Þetta er náttúrulega algjör þvæla"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hólmbert Aron í leik gegn Gróttu á dögunum.
Hólmbert Aron í leik gegn Gróttu á dögunum. Mynd/Daníel
Brynjar Jóhannesson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Fram, segir ekkert hæft í því að að Valsmenn hafi lagt fram tilboð í Hólmbert Aron Friðjónsson og Kristin Inga Halldórsson.

Vefsíðan 433.is greindi frá því í gær að Valsmenn hefðu lagt fram fleiri en eitt tilboð í Kristin Inga og sömuleiðis Hólmbert Aron Friðjónsson.

„Það hefur ekkert borist til okkar með formlegum hætti," segir Brynjar í samtali við Vísi. Hann segist skilja að menn velti fyrir sér stöðu Kristins Inga þar sem hann hafi ekki verið að spila að undanförnu. Ástæðan sé einfaldlega sú að Kristinn sé meiddur.

Brynjar segist hafa heyrt veður af áhuga Valsmanna á Kristni í gegnum kunningja hjá Val en nafn Hólmberts hafi aldrei heyrst í tengslum við möguleg félagaskipti.

„Enda er Hólmbert ekki að fara. Það hefði aldrei komið til greina," segir Brynjar. Hann segir ekkert til í fyrrnefndri frétt. „Þetta er náttúrulega algjör þvæla."

Brynjar viðurkennir að Valsmenn hafi fyrir margt löngu viðrað áhuga sinn á Skotanum Steven Lennon. „Það var ekki nýlega," segir Brynjar.

Framarar mæta KR-ingum í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld klukkan 21. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×