Fótbolti

Þrír miðjumenn fóru meiddir af velli

Óskar Ófeigur Jónsson í Växjö skrifar
Dagný og Sara Björk voru í byrjunarliðinu en Katrín kom inn á í hálfleik.
Dagný og Sara Björk voru í byrjunarliðinu en Katrín kom inn á í hálfleik. Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, þurfti að eyða öllum þremur skiptingum sínum í kvöld í að bregðast við meiðslum eða veikindum leikmanna sinna. Íslenska liðið tapaði þá 0-3 fyrir gríðarlega sterku þýsku liði.

„Við þurftum að gera allar þrjár skiptingar okkar vegna meiddra leikmanna. Dagný (Brynjarsdóttir) fer meidd útaf í hálfleik eftir að hafa fengið spark í ökklann. Við setjum þá Katrínu Ómarsdóttur inn til að fá meira spil því hún er góð í því. Svo tognar hún aftan í læri og biður um skiptingu. Sara (Björk Gunnarsdóttir biður síðan um skiptingu vegna magakrampa," sagði Sigurður Ragnar eftir leikinn.

„Það var áfall fyrir okkur að missa út þrjá af okkar bestu miðjumönnum á einu bretti í svona leik. Þá þurftum við að eyða okkar skiptingum í þessa leikmenn en við hefðum vilja eyða þeim í þá leikmenn sem spiluðu allan tímann síðast til að þær yrði frískar í leiknum á móti Hollandi," sagði Sigurður Ragnar.

Margrét Lára Viðarsdóttir haltraði líka af velli í lokin en hafði sjálf ekki miklar áhyggjur af þeim meiðslum.

„Nú er nóg að gera hjá sjúkraþjálfurnum og það er gott að vera með tvo sjúkraþjálfara og svo Erlu Hendriksdóttur líka. Þær eru nokkrar tæpar og þreyttar eftir að hafa spilað tvisvar 90 mínútur. Við náðum ekki að nýta skiptingarnar eins og við hefðum kosið. Það er samt fullt af möguleikum fyrir hendi og vonandi náum við að púsla liðinu saman fyrir næsta leik," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×