Innlent

Hæstu launin leiða launaskriðið

Heimir Már Pétursson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að því miður sé ekki hægt að fullyrða að laun allra félagsmanna ASÍ hafi hækkað um 29 prósent frá ársbyrjun 2009.
Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að því miður sé ekki hægt að fullyrða að laun allra félagsmanna ASÍ hafi hækkað um 29 prósent frá ársbyrjun 2009. mynd/gva
Launahæstu hóparnir á almenna vinnumarkaðnum, sérstaklega í fjármálageiranum, hafa híft upp meðaltalshækkun launa á undanförnum árum, að mati forseta Alþýðusambandins. En laun á almennum markaði hafa hækkað töluvert umfram þær hækkanir sem samið var um í kjarasamningum.

Í tölum Hagstofunnar kemur fram að laun á almennum markaði hafi hækkað um 29 prósent frá ársbyrjun 2009. Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að því miður sé ekki hægt að fullyrða að laun allra félagsmanna ASÍ hafi hækkað um þessa prósentu. Hann telur eðlilegra að miða launaþróun við stöðuna frá því skömmu fyrir kreppu vegna mismunandi stöðu kjarasamninga.

„Það er hins vegar ljóst að þessi þróun hefur verið mjög mismunandi hjá einstaka hópum. Áherslur kjarasamninga hafa auðvitað verið að hækka lægstu laun, bæði lágmarkslaun og taxtalaun. Við erum t.d. með krónutöluhækkun á lægstu launin sem leiðir til þess að prósentuhækkun þeirra tekjulægri verður hærri og á að vera hærri,“ segir Gylfi.

Hins vegar sé verið að skoða hvernig laun hafi þróast innan einstakra hópa en tölur Hagstofunnar bendi til mikils ójafnræðis. Gylfi segir eðlilegt að skoða stöðuna frá ársbyrjun 2008.

„Þá eru almennar hækkanir t.d. frá 2008 til þessa árs  (samkvæmt samningum) tæplega 25 prósent á meðan launavísitalan á þessu tímabili hækkar um 37,5 prósent,“ segir Gylfi. Munurinn er 12,5 prósentustig.

En á þessu tímabili hækki lágmarkslaun um 60 prósent vegna umsaminna krónutöluhækkana á lægstu launin. Þau hífi hins vegar ekki upp launaskriðið, heldur hópar ofar í launastiganum.

„Já, það kemur dálítið á óvart að það skuli vera þannig að þeir geirar okkar sem eru í efri hluta tekjuskalans, eins og bankarnir og samgöngurnar; við þekkjum það til dæmir úr fluginu, að þar séu launahækkanirnar mestar. Launaskriðið mælist t.d. mest í fjármálageiranum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×