Innlent

Kvartar yfir köttum og krefst bóta

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kettir eru umdeildar skepnur. Kvartað hefur verið yfir lausagöngu katta í Kópavogi.
Kettir eru umdeildar skepnur. Kvartað hefur verið yfir lausagöngu katta í Kópavogi. Mynd úr safni
Íbúi í Kópavogsbæ lagði fram kvörtun til bæjarráðs um ónæði vegna katta fyrr í vikunni. Óskað var eftir bótum vegna fjárútláta sem viðkomandi taldi sig verða að greiða vegna umgangs katta á lóð sinni. Gat bæjarráð ekki orðið við óskinni.

Segir í erindi kvartanda að kettir séu sífellt á flækingi í garði hans, ekki sé hægt að skilja eftir opinn glugga án þess að þar sé kominn köttur auk þess sem fuglalíf fari hverfandi. Vísar kvartandi í samþykkt Kópavogsbæjar um kattahald þar sem tiltekið er að kattaeigendur skuli haga kattahaldi sínu þannig að þeir valdi ekki tjóni eða ónæði. Telur íbúinn reglurnar bitlausar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kettir koma til umræðu innan bæjarráðs Kópavogsbæjar. Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi, hefur lagt fram nokkur erindi í bæjarráði Kópavogs að undanförnu þar sem lagt er til að gripið sé til ráðstafana vegna vaxandi fjölda katta í bænum. Lagði hún fram tillögur um sektarákvæði vegna lausagöngu katta ef reglum þar að lútandi er ekki fylgt auk þess sem hún lagði til að lausaganga katta verði bönnuð á varptíma fugla. Var tillagan felld í bæjarráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×