Íslenski boltinn

Þetta er ekki úrslitaleikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andri Adolphsson í leik með ÍA. Hann verður í banni í kvöld.
Andri Adolphsson í leik með ÍA. Hann verður í banni í kvöld. Mynd/Anton
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari ÍA, segir að það sé þolinmæðisverk fyrir lið að vinna sig úr fallbaráttu.

ÍA mætir Fylki í Árbænum í kvöld en þessi lið eru neðst í Pepsi-deildinni með þrjú stig hvort. Leikurinn hefur því mikla þýðingu fyrir liðin.

Þorvaldur tók við ÍA þann 19. júní síðastliðinn en einu stig Skagamanna til þessa í sumar komu einmitt eftir 2-0 sigur gegn Fram í fjórðu umferð. Þorvaldur var þá þjálfari Fram.

Eftir að Þorvaldur tók við ÍA stýrði hann liðinu í þremur leikjum á níu dögum. Síðan þá hefur liðið fengið tólf daga hvíld og segist Þorvaldur hafa nýtt tímann vel.

„Þetta hefur aðallega snúist um að halda mönnum heilum og koma þeim leikmönnum til baka sem hafa verið meiddir,“ sagði Þorvaldur í samtali við Vísi í dag en hann útilokar ekki að nota einhverja leikmenn í kvöld sem hafa verið frá. „Það verður bara að koma í ljós hvernig þeir verða eftir upphitun,“ bætir hann við.

Að öðru leyti segist hann ekki hafa breytt miklu á þessum dögum sem hann hafði með liðinu fyrir leikinn gegn Fylki í kvöld.

„Leikmennirnir eru eins og þeir eru og þó svo að þjálfarar hafi einhverjar áherslur þá breyta þeir ekki leikmönnum mikið. Við reynum þess í stað að nýta það sem við höfum til að ná í hagstæð úrslit.“

Opnað var fyrir félagaskipti í dag og Þorvaldur segir að Skagamenn séu að leita leiða til að styrkja hópinn. „Við erum að skoða í kringum okkur, bæði innan lands og utan. Þetta er bara hálfur mánuður sem við höfum.“

Hann segir að það sé erfitt fyrir íslensk lið að ná í erlenda leikmenn á þessum tímapunkti þar sem þeir vilji oftast ekki „loka sig inni“ til loka íslenska tímabilsins, þar sem þá þurfi þeir að bíða til áramóta til að fá félagaskipti til erlendra félaga.

„Þetta er vondur gluggi að því leyti en þetta verður að koma í ljós. Við erum líka að vonast til að geta notað einhverja leikmenn sem hafa verið frá vegna meiðsla.“

Þorvaldur segir að stemningin í hópnum sé góð þrátt fyrir slæmt gengi framan af sumri. „Það er þolinmæðisverk að vinna  sig úr fallbaráttu. Við ætlum að standa saman í þessari vinnu og safna eins mikið af stigum og við getum.“

Hann segir þó ekki hægt að stilla þessu upp sem úrslitaleik fyrir framhald þessara liða. „Það er ekki hægt. Auðvitað er þetta mikilvægur leikur en á meðan að það er svo mikið eftir af mótinu er ekki hægt að tala um þennan leik sem úrslitaleik.“

Jóhannes Karl Guðjónsson og Andri Adolphsson verða báðir í leikbanni í kvöld og er það skarð fyrir skildi hjá Skagamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×