Íslenski boltinn

Guðmundur fór í viðtal í leyfisleysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur sést hér lengst til vinstri.
Guðmundur sést hér lengst til vinstri. Mynd / Anton
Guðmundur Magnússon, framherji Víkings Ólafsvíkur, átti frábæran leik með liði sínu á Hlíðarenda í kvöld.

Víkingur Ó. gerðir markalaust jafntefli við Val að Hlíðarenda í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

„Mér fannst við miklu betri fyrir utan kafla í seinni hálfleik. Svo stigum við upp. Ég sá ekki rauða spjaldið (innsk: á Kiko Insa) sem við fengum á okkur en eftir það pökkuðum við bara og reyndum að verja stigið,“ sagði Guðmundur sem virtist á báðum áttum hvort hann ætti að fara í viðtal við blaðamenn í leikslok.

Framherjinn sagði uppleggið hafa verið að loka á Magnús Má Lúðvíksson og láta Nesta bera upp boltann.

„Hann hefur ekki sömu spyrnugetu og Maggi. Við gerðum það vel og miðjumennirnir lokuðu vel á Rúnar Má og Hauk. Þeir voru í vandræðum á tímabili. Fjalar var með boltann og vissi ekkert hvað hann átti að gera.“

Guðmundur hafði sína skoðun á tæklingunni hjá Zato og Hauki Páli.

„Ég sá þetta aftan frá og skil ekki hvernig hann getur gefið Farid gult spjald og honum (Hauki Páli) ekki neitt. Hann fór ekki með sóla á móti eða neitt. Þetta var bara fagmannleg tækling og í mesta lagi gult spjald.“

Að viðtalinu loknu kom í ljós að Guðmundur hafði veitt blaðamanni viðtal þvert á skipanir Ejub Puricevic til leikmanna sinna að fara ekki í viðtöl. Einar Hjörleifsson, markvörður gestanna, fór einnig í viðtöl en samkvæmt heimildum Vísis fékk hann skýr skilaboð frá Ejub, á leiðinni út á völl aftur að leik loknum, hvernig hann ætti að bera sig að í viðtali sínu.

Guðmundur bað Ejub afsökunar á því að hafa farið í viðtal. Ejub svaraði honum að hann yrði að fara eftir settum reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×