Fótbolti

Suarez var að bregðast við hreðjataki Jara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/AFP
Úrúgvæmaðurinn Luis Suarez er á leið fyrir aganefnd FIFA eftir að hafa slegið leikmann Síle í leik í undankeppni HM á dögunum en Knattspyrnusamband Úrúgvæ er ekki sátt við að Suarez sé sá eini sem sé tekinn fyrir. Úrúgvæmenn hafa nú lagt inn til FIFA myndbandsbrot frá leiknum þar sem sjá má fleiri atvik sem kalla á nánari skoðun hjá Aganefnd FIFA.

Argentínski dómarinn Nestor Pitana sá ekki þegar Luis Suarez virtist slá Gonzalo Jara, varnarmann Síle, þegar Úrúgvæ átti hornspyrnu en sjónvarpsmyndavélarnar náðu þessu hnefahöggi sem vakti mikla athygli í fjölmiðlum þar sem Suarez er  vanalega fastagestur.

„Af hverju núna og af hverju Suarez. Þetta er í fyrsta sinn sem FIFA er að aðhafast í svona málum eftir leik í undankeppninni í Suður-Ameríku," sagði Sebastian Bauza, forseti Knattspyrnusambands Úrúgvæ í samtali við Reuters.

„Við erum talsmenn heiðarlegs leiks en viljum vekja athygli á því að Suarez var þarna að bregðast við því að varnarmaður tók hann hreðjataki. Það voru líka fleiri atvik sem Jara komst upp með gegn Suarez. Það er tekist á í fótbolta og dómarinn missir af mörgu," sagði Bauza ennfremur.

Sebastian Bauza talaði einnig um það að Lionel Messi hafi komist upp með að kýla mann í leik Argentínu á móti Bólivíu án þess að fara nánar út í það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×