Innlent

Lögreglumaður fékk nálgunarbann á eltihrelli

Valur Grettisson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu fékk karlmann úrskurðaðan í nálgunarbann í vor vegna ofsókna. Lögreglumaðurinn hafði afskipti af manninum í starfi sínu en viðkomandi var grunaður um lögbrot. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem grípa þarf til þessa ráðs til verndar lögreglumanni.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins kenndi sá sem fékk nálgunarbannið á sig lögreglumanninum um ófarir sínar. Það vatt upp á sig og endaði með því að maðurinn var farinn að ofsækja lögreglumanninn, bæði á heimili hans og annars staðar.

Málið var litið afar alvarlegum augum af embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Úr varð að embættið fór fram á nálgunarbann gegn eltihrellinum fyrir hönd lögreglumannsins og var úrskurður þess efnis samþykktur í vor. Sá sem fékk nálgunarbannið á sig kærði ekki úrskurðinn.

„Það er einstaklega erfitt að takast á við svona mál,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, og bætir við að ofbeldi gegn lögreglumönnum hafi aukist undanfarin ár og að sú þróun sé í takt við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.



„Það eru til nokkur svipuð dæmi á síðustu árum. Þá erum við að tala um menn sem haga sér eins og eltihrellar,“ segir Snorri. Hann útskýrir að ónæðið sé oft í formi hótana í smáskilaboðum en í verstu tilfellunum ógni menn lögreglumönnum á heimilum þeirra. Snorri segist ekki muna eftir því að lögreglumaður hafi áður fengið nálgunarbann á einstakling vegna afleiðinga skyldustarfa sinna.

Snorri segir mikilvægt að það sé tekið harðar á atlögum gegn lögreglumönnum, ekki aðeins því ofbeldi sem þeir mega þola við handtökur heldur einnig þegar árásir beinast að þeim persónulega vegna skyldustarfa þeirra.

Snorri segir heimild í lögum til þess að refsa mönnum aukalega fyrir að beita lögreglumenn ofbeldi. Snorri segir að sá refsiauki hafi ekki skilað sér í refsidómum. Dómarar verði að dæma eftir alvarleika þessara mála.

Að sögn Snorra skipta brot gegn valdstjórninni tugum á síðustu árum. Aftur á móti má telja ofsóknir gegn einstaka lögreglumönnum, sem ná út fyrir vinnu þeirra, á fingrum annarrar handar. 



Fréttablaðið greindi frá því síðastliðinn fimmtudag að lögreglan á Eskifirði hefði til rannsóknar mál þar sem karlmaður réðist inn á heimili lögreglukonu og hótaði fjölskyldu hennar lífláti. Konan var við störf þegar atvikið átti sér stað. Maðurinn, sem hafði í hótunum, var ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald og gengur laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×