Enski boltinn

Tveggja milljarða króna tilboði í Gylfa hafnað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Reading bauð rúmar tíu milljónir punda, um tvo milljarða króna, í Gylfa Þór Sigurðsson á lokadegi félagaskiptagluggans í gær. Þetta staðhæfir staðarblað í Reading.

Ekkert varð af félagaskiptunum en Gylfi Þór var seldur á sínum tíma frá Reading til Hoffenheim í Þýskalandi fyrir 7,5 milljónir punda. Gylfi fór til Reading árið 2005, þá á sextánda aldursári, og var hjá liðinu í fimm ár.

Hann er enn í miklum metum hjá stuðningsmönnum Reading en hann hefur lítið fengið að spila hjá liði sínu, Tottenham, að undanförnu.

Nick Hammond, yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading, greindi frá því á heimasíðu félagsins í gær að það hefði reynt að kaupa leikmann fyrir metfé í gær.

„Við höfum verið að vinna að vinna að því í dag að fá leikmann inn fyrir metupphæð, en það hefur ekki gengið eftir," sagði Hammond en viðkomandi leikmaður var ekki nafngreindur.

Reading keypti í janúar þá Stephen Kelly, Hope Apkan, Nick Blackman og Daniel Carrico.

Gylfi gerði fimm ára samning við Tottenham í sumar og ljóst er að samkvæmt þessu hefur Andre Villas-Boas, stjóri liðsins, ekki gefist upp á Gylfa enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×