Enski boltinn

Wenger: Vorum nálægt því að ná í einn leikmann til viðbótar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nacho Monreal.
Nacho Monreal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði frá því í dag að félagið hafi verið nálægt því að kaupa einn leikmann til viðbótar áður en félagsskiptaglugganum lokaði í gær. Wenger keypti einn leikmann á lokadeginum en Arsenal borgaði Malaga í kringum átta milljónir punda fyrir spænska vinstri bakvörðinn Nacho Monreal.

Nacho Monreal kemur inn fyrir Kieran Gibbs sem meiddist á móti Liverpool í vikunni og verður frá næstu sex vikurnar.

Nacho Monreal er 26 ára gamall og hefur spilað með Málaga frá 2011. Hann var með 1 mark og 3 stoðsendingar í 14 leikjum með Málaga í spænsku deildinni á þessu tímabili en hann var bæði með mark og stoðsendingu í síðasta leik sínum með félaginu, 3-2 sigri á RCD Mallorca um síðustu helgi.

Arsenal var sterklega orðað við David Villa í enskum miðlum á meðan glugginn var opinn en ekkert varð að því að spænski landsliðsframherjinn kæmi til Lundúna frá Barcelona.

„Við vorum nálægt því að ná í einn leikmann til viðbótar. Það varð ekkert af því því félögin sem við vorum í viðræðum við vildu ekki selja," sagði Arsene Wenger og bætti við:

„Þetta var ekki spurning um peninga heldur aðeins þá staðreynd að félgin vildu ekki selja sína leikmenn," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×