Enski boltinn

Pulis óánægður með leikmenn Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tony Pulis, stjóri Stoke, lýsti óánægju sinni með framkomu leikmanna Arsenal þegar að Lukas Podolski skoraði sigurmark síðarnefnda liðsins.

Podolski skoraði markið úr aukaspyrnu en aðstoðardómarinn gaf þá til kynna að Theo Walcott væri rangstæður og að dæma ætti markið af.

Leikmenn Arsenal hópuðust þá að aðstoðardómaranum en stuttu síðar dæmdi dómari leiksins, Andrew Marriner, markið gilt enda hafði Walcott engin áhrif á leikinn á þessu augnabliki.

Pulis var hins vegar ósáttur við framkomu leikmanna Arsenal. „Ég hélt að það væri bannað," sagði hann. „Ef dómarinn dæmir eitthvað verður að standa við það og halda áfram."

„Ég hef ekki hugmynd um hvað rangstaða er lengur. Rangstaða var dæmd og þá hópuðust leikmenn Arsenal í kringum aðstoðardómarann. Dómarinn brást við eftir það."

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, baðst afsökunar á framkomu leikmannanna en sagði hegðun þeirra ekki hafa verið óviðeigandi.

„Hver myndi ekki gera það sama? Við vildum fá að vita hver ástæðan fyrir ákvörðun aðstoðardómarans væri. Við gengum ekki of hart fram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×