Enski boltinn

Fjórða jafntefli QPR í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
QPR situr sem fastast í botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið gerði í dag markalaust jafntefli við Norwich.

Adel Taarabt fékk besta tækifæri leiksins til að skora en lét verja frá sér vítaspyrnu. Markvörðurinn Mark Bunn hafði brotið á Jamie Mackie en sá svo við spyrnu Taarabt.

Taarabt átti tvö langskot til viðbótar en inn vildi boltinn einfaldlega ekki. Norwich fékk einnig sín færi en Julio Cesar var eins og svo oft áður öflugur í marki QPR.

Chris Samba, sem gekk til liðs við QPR í vikunni, var í byrjunarliðinu í dag en liðið er nú með sautján stig eftir 25 leiki. Liðið er þremur stigum á eftir næsta liði.

Norwich er í þrettánda sæti með 28 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×