Enski boltinn

United með tíu stiga forystu á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney skoraði sigurmark Manchester United gegn Fulham í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Rooney skoraði markið með laglegu skoti á 78. mínútu, framhjá varnarmanni og neðst í fjærhornið - án þess að Mark Schwarzer kæmi vörnum við.

Bryan Ruiz, sóknarmaður Fulham, og Wayne Rooney höfðu báðir skotið í stöng í leiknum auk þess sem að leikmenn beggja liða björguðu á marklínu. Ruiz komst til að mynda nálægt því að skora með skalla skömmu fyrir mark Rooney en Rafael bjargaði þá á línu.

United er með 62 stig á toppnum en Fulham í þrettánda sæti með 28 stig. Manchester City getur minnkað forystu United aftur í sjö stig með sigri á Liverpool á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×