Fótbolti

Klopp: Besta sem ég hef upplifað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jürgen Klopp, stjóri Dortmund, segir að endurkoma sinna manna gegn Malaga í Meistaradeild Evrópu í kvöld sé það besta sem hann hafi upplifað á sínum ferli.

Dortmund skoraði tvívegis í uppbótartíma gegn Malaga og komst þannig áfram í undanúrslit keppninnar. Eftir leikinn sagðist Klopp aldrei hafa séð neitt þessu líkt.

„Nei, aldrei. Þetta er ein hlið fótboltans. Annað liðið er niðurbrotið en hitt stálheppið. Þetta var ótrúlegt," sagði Klopp.

„Ég held að þetta hafi verið okkar versti leikur í Meistaradeildinni. Við vorum stressaðir í fyrri hálfleik og spiluðum ekki upp á okkar besta."

„Við reyndum að gera betur í seinni hálfleik en þeir voru klókir. Þetta var ekki auðvelt. Við náðum svo að skora og komumst svo áfram. Það er ótrúlegt hvað á sér stundum stað á þessum velli."

Það hefði þó átt að dæma sigurmark Dortmund af vegna rangstöðu. „Mér skilst að seinna markið hjá Malaga hefði líka verið rangstaða. Það voru afar mikilvægar upplýsingar. En heilt yfir áttum við skilið að fara áfram."

„Ég á erfitt með að lýsa hvernig mér líður. Ég held að ég verði að fara til læknis. Þetta var eins og að við hefðum orðið meistarar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×