Innlent

Kallaður í yfirheyrslu eftir játningu í beinni

Tilgangur þeirra sem dreifðu svínshausunum og blóðugum síðum úr Kóraninum á lóð Félags múslima á Íslandi var að vanhelga lóðina. 
Fréttablaðið/Vilhelm
Tilgangur þeirra sem dreifðu svínshausunum og blóðugum síðum úr Kóraninum á lóð Félags múslima á Íslandi var að vanhelga lóðina. Fréttablaðið/Vilhelm
Íslenskur karlmaður búsettur í Svíþjóð játar að hafa tekið þátt í að koma svínshausum og blóðugu eintaki af Kóraninum fyrir á lóð í Sogamýri á miðvikudag. Múslimar á Íslandi hyggjast reisa mosku á lóðinni.

„Þetta er bara gjörningur. Við vorum bara að mótmæla mosku þarna,“ segir Óskar Bjarnason. Hann segir að hann sé hluti af stærri hópi, og þrír menn til viðbótar hafi staðið að því að dreifa hausunum.

Óskar Bjarnason
Óskar var í viðtali við Útvarp sögu á miðvikudag, sama dag og hausunum var komið fyrir á lóðinni. Þar játaði hann í beinni útsendingu að hafa tekið þátt í verknaðinum. Þar segir hann þó að rauður vökvi sem dreift var á lóðinni hafi verið málning, ekki svínsblóð. 

Í viðtalinu sagði Óskar að tilgangurinn hafi verið sá að vanhelga lóðina svo múslimar vilji ekki byggja þar. Næst verði notast við blóð en ekki málningu.

Talsmenn Félags múslima á Íslandi hafa bent á að þetta hafi engin áhrif á áform um að byggja mosku á lóðinni.

Málið er rannsakað sem meint brot á þeirri grein hegningarlaga þar sem lagt er bann við hatursáróðri segir Benedikt Lund, lögreglufulltrúi hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Lögreglan hefur óskað eftir upptöku af viðtali Útvarps sögu við Óskar.

Hann segir að Óskar verði kallaður til skýrslutöku og málið því næst sent ákærusviði lögreglunnar. Þar verði tekin ákvörðun um hvort ákært verði fyrir hatursglæp.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag telur Björg Thorarensen það blasa við að þessi verknaður teljist hatursglæpur og varði við almenn hegningarlög.

Borgarstarfsmenn hentu bæði svínshausunum og blóðugu eintaki af síðum úr Kóraninum, trúarriti múslima, að lögreglumönnum ásjáandi. Benedikt segir lögreglu því ekkert hafa í höndunum til að staðfesta að um síður úr Kóraninum hafi verið að ræða.

Ljósmyndari Fréttablaðsins tók mynd af síðunum þar sem hægt er að lesa textann og staðfesta að hann er úr Kóraninum. Myndin hefur verið send lögreglu.

Óskar segir að hann hafi verið á staðnum þegar lögreglan hafi komið á vettvang í Sogamýrinni, en lögreglan hafi ekki haft afskipti af honum. „Ég bara stóð þarna og horfði á þá.“

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, vildi ekki tjá sig um málið í gær, og sagðist ekki hafa kynnt sér það né vita um hvað það snúist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×