Innlent

Hafna því að taka upp Baugsmálið

Brjánn Jónasson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson voru ákærðir í Baugsmálinu, ásamt fleirum.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson voru ákærðir í Baugsmálinu, ásamt fleirum. Fréttablaðið/GVA
Endurupptökunefnd hefur hafnað kröfu tveggja sakborninga í Baugsmálinu um að málið verði tekið upp aftur hjá Hæstarétti.

Þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson, sem hlutu tólf og átján mánaða fangelsisdóm í Hæstarétti í febrúar síðastliðnum, töldu villu hafa orðið til þess að dómurinn var svo þungur, og fóru því fram á að málið yrði tekið upp aftur í Hæstarétti til að fá dómsorðið leiðrétt, segir Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs.

Gestur segir að í dóminum hafi komið fram að Jón Ásgeir hafi brotið meira af sér en Tryggvi. Engu að síður hafi Tryggvi hlotið þyngri dóm.

Það segir Gestur að bendi til þess að Hæstiréttur hafi við ákvörðun refsingar dæmt síðara málið sem hegningarauka við fyrra Baugsmálið. Dómur í því máli féll í júní 2008. Þar fengu Jón Ásgeir og Tryggi einnig fangelsisdóma sem voru skilorðsbundnir til tveggja ára. Því hafi ekki átt að líta á síðari dóminn sem hegningarauka við þann fyrri.

Í niðurstöðu endurupptökunefndar segir að ekki hafi verið sýnt fram á að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að það hafi haft áhrif á niðurstöðu þess, og beiðni Jóns Ásgeirs og Tryggva því hafnað.

Bíða dóms Mannréttindadómstólsins

Mál sakborninganna í Baugsmálinu gegn íslenska ríkinu er nú til meðferðar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Ríkið hefur skilað greinargerð í málinu og verjendur skilað skriflegum viðbrögðum við henni. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eins sakborninga í málinu, segir að dómur geti fallið fljótlega eftir áramót.

Falli dómur Mannréttindadómstólsins sakborningum í hag hefur það talsvert fordæmisgildi. Þeir halda því fram að þar sem skattayfirvöld hafi sektað sakborningana hafi þeim verið gerð tvöföld refsins með skilorðsbundnum fangelsisdómi Hæstaréttar. Gestur segir það hafa verið viðtekna venju að ákæra fyrir dómi fólk sem áður hafi verið sektaðir af skattyfirvöldum, og því gæti þurft að vinda ofan af tugum mála falli dómur Mannréttindadómstólsins ríkinu í óhag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×