Enski boltinn

Get ekki ímyndað mér hvað ungu strákunum finnst um mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs hefur verið á toppnum í fótboltaheiminum í meira en tvo áratugi og ef marka má spilamennsku kappans í fyrrakvöld þá er það nánast óskiljanlegt að velski miðjumaðurinn hafi komið í heiminn 29. nóvember 1973.

Ryan Giggs fagnar fertugsafmæli sínu í dag en hann er enn á fullri ferð með aðalliði Manchester United og bætir leikjamet félagsins í hvert skipti sem hann stígur inn á völlinn. „Ég hef svo sem ekki hugsað sérstaklega um þessi tímamót. Þegar ég var stíga mín fyrstu spor með liðinu þá sá ég menn eins og Brucey og Robbo sem voru 33 og 34 ára gamlir. Mér fannst þeir vera ævagamlir þá svo ég get varla ímyndað mér hvað ungu strákarnir halda um mig í dag,“ sagði Ryan Giggs í viðtali við The Telegraph.

Hann er spurður út í fertugsafmælisdaginn. „Þetta er nú bara eins og hver annar dagur. Þeir eru margir svona dagar eins og afmælisdagar eða jól sem maður eyðir á fótboltaæfingum. Ég mun eyða jóladegi á hótelherbergi í Hull. Ég löngu orðinn vanur þessu enda búinn að standa í þessu í 22 ár,“ sagði Giggs.

Giggs hefur fengið ótal gullin tækifæri til að setja punktinn aftan við magnaðan feril en hann er ekki tilbúinn að segja nóg komið þótt það þekkist varla í boltanum að leikmenn spili á hæsta stigi og með einu besta félagsliði heims á hans aldri. Fyrir vikið hefur hann séð til þess að mörg meta hans verða seint bætt auk þess sem hann bætir við nýjum metum á hverju ári.

„Ég veit ekki lengur hvað ég á að segja um Ryan,“ sagði Wayne Rooney eftir sigurinn á Bayer Leverkusen. Giggs hljóp yfir tíu kílómetra í leiknum og aðeins tveir leikmenn United-liðsins náðu því. Hann var allt í öllu í leik liðsins á miðjunni og þegar sumir tóku að þreytast í þýska liðinu þá klóruðu þeir sér örugglega í höfðinu yfir lungnaþoli „gamlingjans“.

Ryan Giggs er óhræddur við að láta heyra í sér í klefanum og miðlar af reynslu sinni til yngri leikmanna United-liðsins. Hann ræðir þetta í fyrrnefndu viðtali í The Telegraph.

„Ég verð enn þá reiður í búningsklefanum. Ég öskra á strákana og ég er „kvartari“. Ef einhver gerir mistök þá læt ég viðkomandi vita af því. Það er hluti af mínu starfi og ég vona að þessir strákar læri af því. Það styrkti mig þegar Bryan Robson gerði það við mig þegar ég var yngri,“ rifjar Ryan Giggs upp.

Ryan Giggs var boðinn fyrsti samningurinn hjá Manchester United á 17 ára afmælisdaginn þegar Manchester United hafði ekki unnið enska meistaratitilinn í að verða aldarfjórðung. Giggs átti heldur betur eftir að bæta úr því. Hann hefur nú unnið 35 titla með félaginu, þar af varð hann enskur meistari í þrettánda sinn síðastliðið vor.

Giggs fékk íþróttahæfileika sína í vöggugjöf frá föður sínum sem var rúgbý-leikmaður. Það gat samt enginn séð fyrir sér hversu lengi hann héldi sér á toppnum. Það er magnað að vera enn hjá sama félagi eftir 23 ár og það er enn magnaðra að hann sé enn að berjast um sæti í byrjunarliði Manchester United þegar hann dettur inn á fimmtugsaldurinn. Já, Giggs er fyrir löngu orðinn eitt af undrum fótboltans.

„Fólk mun alltaf ræða aldur Ryans en það getur enginn efast um getu hans inni á fótboltavellinum. Hann er frábær og sýndi það í kvöld í öllu sem hann gerði í leiknum. Hann átti nóg inni og er æðislega fjölhæfur leikmaður,“ sagði David Moyes, núverandi knattspyrnustjóri, eftir 5-0 útisigur á Bayer Leverkusen í fyrrakvöld. Giggs spilaði þarna sinn 148. leik í Meistaradeildinni en fyrr í vetur bætti hann leikjametinu í deild þeirra bestu við öll sem hann hefur safnað að sér á stórkostlegum ferli.

„Hann er ótrúlegur og það er jafnvel hægt að segja að hann sé alltaf að verða betri. Yfirsýnin og sendingin í síðasta markinu sem Nani skoraði var stórbrotin. Hann er líka í mögnuðu formi. Ég er heppinn að fá að vinna með honum,“ sagði Moyes, en hann réð Ryan Giggs sem aðstoðarþjálfara þegar hann tók við liðinu af Sir Alex Ferguson.

„Manchester United hefur verið fullkominn klúbbur fyrir mig,“ sagði Ryan Giggs einhvern tímann, en það er hægt að segja á móti að Ryan Giggs hafi verið fullkominn leikmaður fyrir Manchester United. Hann er hvergi nærri hættur og er opinberlega farinn að tala um að spila þúsund leiki fyrir Manchester United. Það þýðir bara eitt til tvö tímabil í viðbót, sem ætti að gleðja stuðningsmenn United sem elska manninn nú nóg fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×