Innlent

Jógar vilja þrettán metra bronsgúrú við Esjuna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Indverki gúrúinn Sri Chinmoy skýtur hér upp kollinum í skógarrjóðri við Esjurætur.
Indverki gúrúinn Sri Chinmoy skýtur hér upp kollinum í skógarrjóðri við Esjurætur. Samsett mynd/Sri Chinmoy miðstöðin.
Sri Chinmoy miðstöðin íhugar nú að kaupa land við rætur Esjunnar undir þrettán metra háa bronsstyttu af Chinmoy.

Guðný Jónsdóttir hjá Sri Chinmoy miðstöðinni á Íslandi segir um að ræða listaverk tileinkað friði gert af Englendingnum Kaivaliya Torpy. Hann hafi gert margar styttur af Chinmoy og standi þær víða um heim, til dæmis í Osló, í Prag, á Bali og í Vasa í Finnlandi.

Hér sést styttan í samanburði við hús sem stendur á lóðinni.Mynd/Sri Chinmoy miðstöðin.
Að sögn Guðnýjar yrði styttan á Íslandi sú langstærsta af Chinmoy sem Torpy hefði gert hingað til af hinum heimsþekkta indverska gúrú og kraflyftingamanni. Torpy hefur komið þrisvar til Íslands og ferðast um. Hér upplifir hann frið í náttúrunni og draumur hans er að styttan verði hér,“ segir Guðný.

Sri Chinmoy sýndi aflraunir í heimsókn hér á landi 1989 og lyfti þá Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra.Mynd/Sv.Þ
Styttan á að verða 13,35 metra há og sýna Chinmoy í sitjandi stöðu. Óskað hefur verið eftir svari frá Reykjavíkurborg við því hvort reisa megi styttuna í landi Lunds við Mógilsá. Þar er tveggja og hálfs hektara skógi vaxinn skiki með gömlu húsi einmitt til sölu um þessar mundir. Ásett verð er 35 milljónir króna.

Uppdráttur sem sýnir hlutföll styttunnar gagnvat fólki.Mynd/Sri Chinmoy miðstöðin
„Við förum náttúrlega ekki að kaupa land nema vita fyrirfram að við fengjum leyfi,“ segir Guðný sem kveður skiljanlegt að borgin vilji skoða fyrirspurn þeirra vandlega. „Þeir vilja vitanlega kanna hvort hér er alvara að baki eða hvort við erum bara einhverjir rugludallar.“

Þeir sem standa að Sri Chinmoy miðstöðinni á Íslandi eiga að sögn Guðnýjar það sameiginlegt að hafa numið hugleiðslu hjá indverska jóganum. Hann lést árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×