Lífið

Eyþór Ingi ættleiddur

Eyþór Ingi og Atómskáldin slá botn í Tónlistarvikuna á föstudagskvöldið á Selfossi.
Eyþór Ingi og Atómskáldin slá botn í Tónlistarvikuna á föstudagskvöldið á Selfossi. Mynd/JESSICA GOW
„Það verður mjög mikið um að vera, við ætlum vekja upp tónlistaráhuga fólksins í bænum,“ segir Bjarmi Skarphéðinsson. Hann er annar af skipuleggjendum Tónlistarvikunnar sem fram fer á Selfossi í vikunni en mikil og skemmtileg dagskrá einkennir hana.

„Við á Selfossi ættleiðum tónlistarmanninn Eyþór Inga Gunnlaugsson þessa viku og mun hann spila, fræða og tjá hug sinn til tónlistar á ýmsum samkomum,“ útskýrir Bjarmi. Eyþór Ingi kemur fram í öllum leikskólum og grunnskólum í sveitarfélaginu Árborg, þar sem hann mun spila og eiga skemmtilega stund með krökkunum og fólkinu.

„Þetta leggst mjög vel í mig og verður forvitnilegt og skemmtilegt,“ segir Eyþór Ingi um tónlistarvikuna.

Ásamt því að skemmta og spjalla við krakkana í skólunum heldur hann fyrirlestur í félagsmiðstöðinni Zelsíuz. „Ég ætla bara að spjalla við fólkið, eiga góða stund með þeim og skapa umræðu um tónlist og gildi hennar,“ bætir Eyþór Ingi við.

Þá mun söngvarinn dæma bæði í söngvakeppni Fjölbrautaskóla Suðurlands og söngvakeppni félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz, sem báðar fara fram í vikunni.

Selfoss hefur getið sér gott orð sem einn fremsti tónlistarbær Íslands, en er þó í mikilli samkeppni við Keflavík og Dalvík. „Það er blómlegt tónlistarlíf hérna á Selfossi og mörg þekkt nöfn eiga rætur að rekja hingað. Við viljum endilega vekja enn meiri athygli á tónlistinni með þessari Tónlistarviku,“ bætir Bjarmi við.

Margar þekktar sveitir á borð við Skítamóral, Ingó og Veðurguðina og Mána eru allar frá kaupstaðnum. Allt frá poppi yfir í rokk, og allt þar á milli.

Tónlistarvikunni lýkur með stórtónleikum í íþróttahúsinu IÐU, þar sem Eyþór Ingi og hljómsveit hans, Atómskáldin, koma fram, ásamt kór FSU og fleiri sveitum frá Selfossi. „Það verður öllu tjaldað til, þarna verður ljósa- og hljóðbúnaður á heimsmælikvarða,“ bætir Bjarmi við að lokum.

Eyþór Ingi og Atómskáldin gáfu nýverið út sitt fyrsta smáskífulag, Hárin rísa, en það er á væntanlegri plötu þeirra félaga. Lagið má finna hér fyrir neðan.

Miðasala á tónleikana fer fram midi.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.