Tíska og hönnun

Gerðu fimm ára samning við helsta hönnunarfyrirtæki heims

Sara McMahon skrifar
Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir hönnuðu dagatal fyrir nokkrum árum. Wrong for Hay selur nú dagatalið undir sínu nafni.
Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir hönnuðu dagatal fyrir nokkrum árum. Wrong for Hay selur nú dagatalið undir sínu nafni. Fréttablaðið/Valli
„Þetta kom þannig til að hönnuðurinn Sebastian Wrong kom hingað til lands í tengslum við Design Match, sem er á vegum Hönnunarmiðstöðvar og Hönnunarmars. Design Match er ætlað að koma á tengslum á milli íslenskra vöruhönnuða og erlendra aðila og þannig kynntumst við Wrong. Hann hóf nýverið samstarf við danska hönnunarfyrirtækið Hay og hannar systurlínu undir nafninu Wrong for Hay, dagatalið okkar verður selt undir því nafni,“ segir Snæfríð Þorsteins um samstarf sitt og Hildigunnar Gunnarsdóttur við hönnunarrisann Hay.

Snæfríð og Hildigunnur hönnuðu umrætt dagatal fyrir um fimm árum en samningurinn við Hay er nýr af nálinni.

„Það eru mörg ár síðan dagatalið leit fyrst dagsins ljós. Við höfum gefið það út árlega í nokkur ár og breytt útlitinu í hvert sinn okkur til gamans. Dagatalið er „rífidagatal“, maður rífur dagana af og sér árið tætast upp,“ útskýrir Snæfríð.

Spurð nánar út í samninginn við Wrong for Hay segir Snæfríð að fyrirtækið hafi tryggt sér einkarétt á dagatölunum næstu fimm árin en þær halda réttinum á Íslandi. „Við fáum svo prósentu af hverri sölu. Hay hefur verið á þvílíkri siglingu undanfarið og eru með öfluga dreifingu á vörum sínum. Þetta er því ansi þétt dreifikerfi sem við dettum inn í.“

Snæfríð er vöruhönnuður að mennt og Hildigunnur er grafískur hönnuður. Þær hafa starfað lengi saman og vinna einkum við grafíska hönnun. Aðspurð segir Snæfríð að þær stöllur mundu gjarnan vilja halda samstarfinu við Hay áfram, standi það til boða. „Þetta er það fyrirtæki sem við hefðum helst viljað vinna með. Við sjáum svo hvernig þetta samstarf fer,“ segi hún að lokum.



Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir hönnuðu dagatal sem fæst nú hjá systurfyrirtæki Hay, Wrong for Hay. Fréttablaðið/Valli
Hay á hraðri siglingu

Hönnunarfyrirtækið Hay var stofnað árið 2002 og frumsýndi sína fyrstu línu á hönnunarmessunni IMM í Köln árið 2003. Markmið Hay var að skapa fallega hönnun í anda sjötta áratugarins en með nútímalegum blæ.

Fyrirtækið rekur þrjár verslanir í Danmörku og eina í Noregi auk þess sem vörur þeirra fást í verslunum víða um heim, þar á meðal hér á landi. Hönnun þeirra má gjarnan finna á síðum hönnunartímarita og er stóllinn J77 á meðal þeirra þekktustu vara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×