Innlent

Tíu tillögur lágu fyrir árið 2011

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Dráttur á aðgerðum vegna óheillaþróunar hvað varðar lestrargetu drengja verður tekinn upp á næsta fundi Skóla- og tómstundaráðs Reykjavíkur að beiðni Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

„Komin eru þrjú ár síðan afgreiddar voru tíu tillögur sem sérstaklega snerta strákana,“ segir Þorbjörg Helga, en hún var formaður starfshóps um vanda drengja sem skilaði skýrslu sinni haustið 2011.

„Það virðist vera viðvarandi að verið sé að greina vandann og síðan eru ekki neinar aðgerðir.“ Óásættanlegt sé að börn útskrifist á endanum ólæs úr grunnskóla. „Þeir sem geta ekki lesið þeir geta ekki gert margt,“ bætir hún við.

Í lesskimun sem lögð var fyrir í öðrum bekk grunnskóla í vor kom í ljós að 67 prósent stúlkna gátu lesið sér til gagns, en einungis 59 prósent drengja.

Þorbjörg áréttar að vandinn einskorðist ekki við Reykjavík, lesskimanir og PISA kannanir sýni að sama eigi við um allt land hvað varðar mun á drengjum og stúlkum.

„Þetta er því ekki bara vandamál sveitarfélaganna. Kennarar hljóta að þurfa að fjalla líka um málið og segja okkur hvað þeir telji að þurfi að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×