Innlent

Lögregla íhugar nálgunarbann

Valur Grettisson skrifar
Seyðisfjörður Maður fór að heimili lögreglukonu á Seyðisfirði.
Seyðisfjörður Maður fór að heimili lögreglukonu á Seyðisfirði.
„Það hefur ekki komið til tals að fara fram á nálgunarbann en það er inni í myndinni,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, en embættið rannsakar alvarlegt áreiti karlmanns gagnvart lögreglukonu sem átti sér stað á Seyðisfirði í síðustu viku.

Maðurinn fór að heimili konunnar, en hún var þá eini lögreglumaðurinn á vakt í umdæminu. Tveir skiptinemar frá Frakklandi voru heima hjá henni og voru þeir að gæta fjögurra ára gamals sonar hennar. Karlmaðurinn lét öllum illum látum fyrir utan heimilið en nemarnir hröktu manninn á brott. Lögreglukonan sótti svo barnið og fóru þau á gistiheimili í öðru bæjarfélagi.

Jónas segir að skýrsla hafi verið tekin af manninum á þriðjudag og má búast við því að málið verði sent til ríkissaksóknara í vikunni.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu hefði fengið nálgunarbann á eltihrelli sem ofsótti hann. Jónas segir það ekki útilokað að farið verði fram á slíkt hið sama í þessu tilfelli. „Það verður klárlega rætt,“ segir Jónas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×