Lífið

Leikritun og kvikmyndagerð fer vel saman

Sara McMahon skrifar
Ragnar Bragason segist vel geta hugsað sér að vinna meira með leikritun.
Ragnar Bragason segist vel geta hugsað sér að vinna meira með leikritun. Fréttablaðið/Anton Brink
„Við erum nú bara að leggja af stað í þetta ferðalag, ég byrjaði að vinna með leikarahópnum í gær [mánudag]. Þetta er unnið á sama hátt og Gullregn; ég geri beinagrind, fer svo í spunavinnu með leikurunum og vinn síðan verkið upp úr því,“ segir leikstjórinn Ragnar Bragason, sem hefur hafist handa við þróun leikverksins Óskasteinar. Þetta er annað leikverk Ragnars fyrir Borgarleikhúsið en hið fyrra, Gullregn, var vinsælasta sýning leikhússins í fyrra.

Óskasteinar fjallar um hóp ógæfufólks sem gerir tilraun til bankaráns. Ránið misheppnast og leggst hópurinn á flótta, ásamt eldri konu sem þau hafa tekið í gíslingu. „Fólkið leitar skjóls inni á leikskóla og verkið gerist þar um kvöldið og nóttina. Hugmyndin að verkinu spratt í raun út frá hinu sjónræna; myndinni af fólki sem lífið hefur leikið grátt, sitjandi á smáum húsgögnum og í þessu fallega og saklausa umhverfi. Þessi mynd hefur fylgt mér í nær tuttugu ár,“ útskýrir Ragnar.

Leikstjórinn kveðst vel geta hugsað sér að halda áfram að sinna leikritun samhliða kvikmyndagerð. „Þetta tvennt fer mjög vel saman. Í raun er þetta sami hluturinn þótt sýningarformið sé annað. Maður er að segja sögur af fólki og reyna að kveikja eitthvað með áhorfandanum,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.