Innlent

Engar reglur um hjólhýsabyggðir

Valur Grettisson skrifar
Skógræktin hugar að nýjum reglum til að tryggja betur öryggi í hjólhýsabyggðum.
Skógræktin hugar að nýjum reglum til að tryggja betur öryggi í hjólhýsabyggðum. Mynd/Stöð 2
„Það eru engar reglugerðir til um þessi hýsi þegar búið er að taka þau af ökutækjaskrá,“ segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, um öryggismál varðandi hjólhýsabyggðina í Þjórsárdal, en þar hafa þrír látist í tveimur slysum á innan við hálfu ári. Um helgina lést kona á áttræðisaldri í bruna í hjólhýsi sínu. Talið er að upptök eldsins hafi verið út frá gasbúnaði í ísskáp hjólhýsisins

Hreinn segir að Skógrækt ríkisins, sem hefur umsjón með svæðinu, hyggist breyta reglum með þeim hætti að ekki verði lengur hægt að selja hjólhýsin á landinu þar sem eigendur leigja. Það sé meðal annars gert með það að markmiði að fólk þurfi að fjarlægja hjólhýsin sín eftir að það hættir að leigja landið.

„Sum hjólhýsin hafa ekki verið skoðuð lengi, enda ekki á númerum, og jafnvel búið að rífa hjólin undan þeim. Svo eru þau ótryggð að auki,“ segir hann um ásigkomulag hjólhýsanna á svæðinu. Þá eru hjólhýsin sum hver ansi gömul. „Þau elstu eru um þrjátíu ára gömul,“ bætir hann við og segir það hluta af vandanum.

Aðspurður segir hann að ekki standi til að loka fyrir hjólhýsabyggð á svæðinu.

Eigendur hjólhýsa í Þjórsárdal hafa margir hverjir viljað leggja rafmagn að þeim. Spurður út í þetta svarar Hreinn að það hafi ekki verið farið út í slíkar aðgerðir af þeirri einföldu ástæðu að slíkt væri of kostnaðarsamt. Þar fyrir utan er Hreinn ekki viss um að slíkt yrði endilega til bóta út frá öryggissjónarmiðum, „Slysin verða einnig í kringum rafmagn,“ útskýrir hann.

Spurður hvað Skógrækt ríkisins ætli að gera til þess að auka öryggi varðandi hjólhýsabyggðina svarar Hreinn: „Við þurfum að skoða okkar mál. Það er alveg á hreinu.“

Hreinn undirstrikar að slysið hafi haft mikil áhrif á starfsmenn Skógræktarinnar, „Okkur þykir þetta alveg hræðilegt. Við erum eyðilagðir yfir þessu.“

Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, segir að málið verði skoðað af sveitarstjórninni. Hann tekur undir með Hreini að hjólhýsabyggðin sé á gráu svæði varðandi reglugerðir. „Og við munum að sjálfsögðu skoða þetta mál vel,“ segir hann.

Björgvin bætir við að orsök slyssins sé algjörlega ótengd ástandi hjólhýsisins og hrein tilviljun að þessi banaslys skuli gerast á sama stað með svo stuttu millibili.

Yfir hundrað hjólhýsiUm 140 hjólhýsi eru í hjólhýsabyggðinni í Þjórsárdal. Þar hefur verið byggð í áratugi en elstu hjólhýsin eru um 30 ára gömul. Fyrirkomulag flestra hjólhýsanna uppfyllir ekki þau skilyrði sem byggingarreglugerð setur.

Sökum jarðfestunnar og áfastra mannvirkja er varla hægt að tala um færanleg hjólhýsi. Nær væri að kalla þau ódýrar útfærslur á sumarbústöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×