Íslenski boltinn

Ætlar að rokka í Reykjavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Síðan Ásgeir Börkur yfirgaf Sarpsborg hefur norska liðið tapað báðum sínum leikjum. Börkur segir liðið hafa spilað vel en varnarleikurinn gengið illa. Liðið hefur fengið á sig níu mörk í leikjunum tveimur án hans.
Síðan Ásgeir Börkur yfirgaf Sarpsborg hefur norska liðið tapað báðum sínum leikjum. Börkur segir liðið hafa spilað vel en varnarleikurinn gengið illa. Liðið hefur fengið á sig níu mörk í leikjunum tveimur án hans. Mynd/Stefán
„Við vorum töluvert betra liðið í fyrri hálfleik og hefðum átt að gera út um leikinn þá,“ segir Ásgeir Börkur Ásgeirsson, miðjumaður Fylkis. Árbæingar lögðu Stjörnuna 2-1 á miðvikudagskvöldið en sigurinn var sá þriðji í röð. Leikurinn er einnig þriðji leikur Ásgeirs Barkar, sem sneri aftur í Árbæinn eftir sextán vikna lánsdvöl hjá Sarpsborg 08 í Noregi. Ásgeir Börkur er leikmaður 14. umferðar að mati Fréttablaðsins.

„Ég hafði auðvitað oft talað um að það væri draumurinn að fara í atvinnumennsku,“ segir Ásgeir Börkur, sem oftast er kallaður Börkur. Hann kunni vel að meta tímann í Noregi. Eftir bekkjarsetu í fyrsta leiknum fékk miðjumaðurinn stórt hlutverk í liði nýliðanna í úrvalsdeildinni og stóð sig vel.

„Þetta gekk framar vonum, þjálfarinn hafði trú á mér og ég spilaði meira en ég bjóst við. Ég fór samt auðvitað út fullur sjálfstrausts og ætlaði mér sæti í liðinu,“ segir Börkur. Á þeim stutta tíma sem hörkutólið Börkur spilaði í Noregi þurfti hann tvívegis að taka út leikbann vegna gulra spjalda, nokkuð sem hann þekkir vel úr íslenska boltanum.

Var lagður í einelti

„Dómararnir hérna heima hafa auðvitað lagt mig í einelti,“ segir hann hlæjandi. „Það er mitt hlutverk í liðinu að brjóta niður sóknir.“ Spjöldin fylgi oftar en ekki í kjölfarið.

Það var að vonum svekkjandi fyrir miðjumanninn þegar honum var tilkynnt að Sarpsborg ætlaði ekki að kaupa hann frá Fylki að lánstímabilinu loknu. Forráðamenn báru fyrir sig slæman fjárhag félagsins.

„Þau voru skilaboðin sem ég fékk,“ segir Börkur. Hann bætir við að samningsstaða sín hjá Fylki hafi líklega ekki hjálpað til. Börkur á aðeins þrjá mánuði eftir af samningi sínum og því ljóst að Sarpsborg eða önnur félög geta fengið hann frítt í lok leiktíðar.

„Það var smá súrt að geta ekki haldið áfram í atvinnumennskunni sem var frábær í alla staði.“

Væri annars ekki merkilegur

Einhverjir hefðu átt í erfiðleikum með að gíra sig upp í leiki í Pepsi-deildinni eftir heimkomuna. Ekki Börkur, sem hefur verið frábær í öllum þremur sigurleikjum Árbæinga. Baráttan einkennir hans leik.

„Svona er ég bara. Ef ég myndi ekki gefa mig í alla leiki og hlaupa úr mér lungun væri ég ekki merkilegur knattspyrnumaður. Maður þarf að gera það sem maður gerir vel og leggja sig 100% fram,“ segir Börkur. Þótt vonbrigðin hafi verið mikil að snúa heim úr atvinnumennskunni sá hann ljósa punkta og ný markmið.

„Þá var tækifæri til þess að hjálpa liðinu mínu, enda er ég mikill Fylkismaður.“

Börkur hefur sinnt tónlistinni meðfram fótboltanum og bæði sungið með hljómsveitinni Shogun, sem vann Músíktilraunir árið 2007, og Mercy Buckets, sem hann söng með í vetur.

„Við spiluðum mikið í vetur og sömdum á fullu,“ segir Börkur en hljómsveitin tók sér hlé við brottför Barkar til Noregs. Æfingar eru fyrirhugaðar á næstunni. „Við ætlum að spila á tónleikum og rokka í Reykjavík,“ segir Börkur. Þá eru meðlimir Shogun einnig komnir með hljóðfærin í hönd og spila gömlu slagarana að sögn Barkar.

Miðjumaðurinn 26 ára stefnir ótrauður á að endurnýja kynnin við atvinnumennskuna.

„Ekki spurning. Ég klára tímabilið með fagmönnunum í Fylki og stefni svo á að koma mér út í janúar. Nú er ég búinn að fá smjörþefinn af þessu og hef séð að ég get staðið í stóru köppunum í norsku úrvalsdeildinni,“ segir Ásgeir Börkur Ásgeirsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×