Íslenski boltinn

Ég held að þeir verði steinsofandi á þessum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson þjálfar lið ÍBV.
Hermann Hreiðarsson þjálfar lið ÍBV. Mynd/Daníel
ÍBV og FH mætast í dag á Hásteinsvellinum í Vestmannaeyjum í 14. umferð Pepsi-deildar karla og er þetta í fyrsta sinn sem spilað er á miðri Þjóðhátíð.

„Það verður nóg af gæslumönnum og þrisvar sinnum fleiri lögreglumenn en venjulega. Við höfum engar áhyggjur af þessu,“ segir Örn Hilmisson sem er yfir öryggismálunum á leiknum í dag. Örn hefur ekki áhyggjur af ölvuðum mönnum sem gætu reynt að hlaupa inn á völlinn.

„Ég held að þeir verði steinsofandi á þessum tíma,“ segir Örn í léttum tón og bætir svo við: „Það er æðislegt að þessi leikur geti farið fram á þessum tíma.“ Örn býst við að áhorfendur verði fleiri en 2.600.

„Það verða eflaust einhverjir í skotastúkunni en ef þeir eru innan svæðisins fyrir aftan gömlu stúkuna þá verða þeir bara rukkaðir. Þeir sem eru að fara inn í dal fara í gegnum trekt og það verður öflug gæsla sem stýrir þeim í gegn. Ef menn ætla að komast hjá því að borga inn á leikinn þá verða þeir bara handrukkaðir,“ segir Örn hlæjandi.

„Það er ekkert að því að vera með leik á Þjóðhátíð. Við fengum einn leik um sjómannadagshelgina, tvo leiki á goslokahelginni og annar þeirra var Evrópuleikur og svo fáum við þennan leik núna,“ segir Örn kátur og klár í slaginn í dag. Leikur ÍBV og FH hefst klukkan 14.00 og er í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×