Innlent

Börn fái ekki mengaðan fisk

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Krakkarnir í mötuneyti Háteigsskóla þurfa ekki að óttast að boðð sé upp á mengaðan fisk, ólíkt nemendum annars staðar á Norðurlöndunum.
Krakkarnir í mötuneyti Háteigsskóla þurfa ekki að óttast að boðð sé upp á mengaðan fisk, ólíkt nemendum annars staðar á Norðurlöndunum. fréttablaðið/Anton
Sænska matvælastofnunin hefur sent leikskólum og skólum í Svíþjóð ný fyrirmæli þar sem segir að Eystrasaltssíld eigi alls ekki að bera á borð fyrir börn. Feitur fiskur sem veiddur er í Eystrasalti inniheldur oft dioxín yfir hættumörkum Evrópusambandsins, ESB.

Á fréttavef Dagens Nyheter er haft eftir Pontus Elvingsson, sérfræðingi hjá stofnuninni, að þar sem vitað sé að það sé skaðlegt fyrir börn og konur á frjósemisaldri að borða feitan fisk úr Eystrasalti oftar en tvisvar til þrisvar á ári sé alveg eins gott að skólarnir kaupi hann alls ekki.

Villti laxinn í Eystrasalti er svo mengaður af díoxíni að Svíar mega ekki flytja hann út til ESB-landa. Fyrr í sumar greindi sænska sjónvarpið frá því að laxinn hefði verið seldur í miklu magni til margra landa, meðal annars til Frakklands.

Rannsókn fréttamanna sænska ríkissjónvarpsins leiddi í ljós að að minnsta kosti þrjú sænsk fyrirtæki hefðu flutt út hundruð tonna af Eystrasaltslaxi ólöglega. Samkvæmt kvittunum sem sænska ríkissjónvarpið vitnaði í seldi eitt þeirra, Blekingefiskarnars centralförening, yfir 100 tonn af Eystrasaltslaxi til Frakklands á árunum 2011 og 2012.

Talsmaður þesss, Per Ahlgren, sagði í viðtali við sænska sjónvarpið að ekki væri hægt að selja laxinn í Svíþjóð. Frakkland og Danmörk hefðu  verið einu löndin sem hefðu viljað kaupa laxinn.

Ahlgren sagði viðskiptavini sjálfa hafa tekið sýni úr laxinum og niðurstöðurnar verið þær að dioxínmagnið hefði ekki verið svo mikið. Þess vegna hefðu menn ekki hikað við að selja laxinn úr landi. Pontus Elvingsson hjá sænska matvælaeftirlitinu kvaðst efast um að rannsóknir viðskiptavinanna væru traustvekjandi. Slíkar rannsóknir væru dýrar og tækju langan tíma. Skyndikannanir gæfu ekki rétta mynd.

Elvingsson lagði áherslu á að með útflutningnum væri heilsu neytenda í öðrum löndum stefnt í hættu. Það er mat hans að ólöglegur útflutningur Svía á laxi sé samanburðarhæfur við hrossakjötshneykslið. Neytendur séu látnir standa í þeirri trú að eitthvað sé öðruvísi en það er. Munurinn sé sá að neyslan á fiskinum hafi langvarandi áhrif á heilsu fólks og það sé alvarlegt.

Hundruð tonna af laxi hafa verið flutt út ólöglega frá Svíþjóð til ESB-landa. Fréttablaðið/Pjetur
Undanþágur frá banni ESB

Magn díoxíns og díoxínlíkra PCB-efna í Eystrasaltssíld og Eystrasaltslaxi er yfir hættumörkum ESB. Staðfest hefur verið að efnin valdi ýmsum kvillum í dýrum, þar á meðal krabbameini og skaða á ónæmiskerfi og æxlunarfærum.

Svíar fengu undanþágu frá banni ESB frá 2002 gegn eiturefnum í fiski. Þeir mega borða og selja fiskinn í Svíþjóð sé þess getið að börn og ófrískar konur eigi ekki að neyta hans oftar en þrisvar á ári.

Svipaðar undanþágur gilda í Finnlandi og Lettlandi og þess vegna mega Svíar flytja út fisk úr Eystrasalti þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×