Íslenski boltinn

Verður bara sætara að klára þetta í Færeyjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Liðsmenn Glentoran reyndu hvað þeir gátu að tefja í fyrri leiknum í Vesturbænum. Uppskeran var markalaust jafntefli sem þeir þáðu með þökkum.
Liðsmenn Glentoran reyndu hvað þeir gátu að tefja í fyrri leiknum í Vesturbænum. Uppskeran var markalaust jafntefli sem þeir þáðu með þökkum. Fréttablaðið/Daníel
„Það var bara eitt lið á vellinum í sjötíu mínútur í Eyjum,“ segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV. Eyjamenn gerðu 1-1 jafntefli gegn HB frá Færeyjum í fyrri leiknum þrátt fyrir mikla yfirburði. Af íslensku liðunum þremur má segja að staða Eyjamanna sé fyrir fram verst sé horft til úrslita í fyrri leiknum.

„Það var okkar klúður að ganga ekki frá fyrri leiknum og viðureigninni í heild sinni. Það verður bara sætara að klára seinni leikinn,“ segir Hermann borubrattur. Eyjamenn flugu til Færeyja í gær og æfðu á keppnisvellinum um kvöldið. Hermann segir mikið í húfi fyrir ÍBV í kvöld og raunar öll íslensku félögin.

„Íslensku félögin í heild sinni þurfa að fara áfram og fá fleiri stig til að komast ofar á styrkleikalista UEFA. Við ætlum áfram í næstu umferð og það er mikill hugur í okkur.“

Eigum fína möguleika

Aldrei áður hafa öll þrjú karlalið Íslands lagt andstæðinga sína að velli sama árið. Möguleikinn er góður en KR-ingar eiga erfitt verkefni fyrir höndum í Belfast eftir markalaust jafntefli við Glentoran í fyrri leiknum í Vesturbænum.

„Við erum mjög bjartsýnir og vonumst til að geta komist áfram. Við eigum fína möguleika en þurfum að eiga góðan leik,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. KR-ingar réðu gangi fyrri leiksins en gekk bölvanlega að skapa sér marktækifæri.

„Kannski koma þeir eitthvað framar og þá gæti opnast eitthvað. Úrslit fyrri leiksins eru alls ekki svo slæm. Við þurfum að skora en þeir líka,“ segir Rúnar.

KR mætti norður-írska liðinu fyrir þremur árum við sama tilefni. KR vann 3-0 sigur í heimaleiknum en gerði 2-2 jafntefli úti. Sömu úrslit myndu duga Vesturbæingum í kvöld.

Ekki bilaðslega reyndir

Breiðablik er komið með annan fótinn og rúmlega það í aðra umferð eftir 4-0 sigur á FC Santa Coloma frá Andorra í fyrri leiknum.

„Við þurfum að fara auðmjúkir í þetta þó svo að gengið hafi vel í fyrri leiknum. Þessi leikur verður tekinn tökum frá fyrstu mínútu,“ segir Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði Blika. Hann segir markmiðið að halda markinu hreinu og fara í leikinn af miklum krafti.

„Menn geta ekkert leyft sér að slaka á í Evrópukeppninni. Það er ekki eins og við séum bilað reyndir í Evrópukeppni.“

Leikurinn í Andorra hefst klukkan 15.30, í Færeyjum verður flautað til leiks klukkan 18 og hálftíma síðar á Írlandi. Fylgst verður með gangi mála í öllum leikjunum á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×