„Það væri okkur mikil ánægja að geta boðið Ísland velkomið sem hluta af Evrópusambandinu.“ Þetta sagði Joachim Gauck, forseti Þýskalands, í borðræðu sinni í hátíðarkvöldverði með forseta Íslands í gærkvöldi.
Gauck sagði Þýskaland hafa stutt aðild Íslands „af fullum þunga“ og bætti því við að hann gæti ekki látið kvöldið líða án þessa að undirstrika þetta.
Hann tók þó fram að hann vissi að Íslendingar væru klofnir í afstöðu sinni til ESB aðildar og að framundan væri ákvörðun um framhald viðræðnanna.
Í niðurlagi sagðist Gauck vonast til þess, hvernig sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar yrði, að haldið yrði áfram uppbyggilegu samstarfi við Ísland, „hvort sem það verður undir formerkjum aðildar að Evrópusambandinu eða sem áframhaldandi samstaf innan núverandi ramma evrópska efnahagssvæðisins.“
