Innlent

Selja hugbúnaðinn til tólf landa

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Georg Lúðvíksson fyrir miðju, frá vinstri  Viggó Ásgeirsson, Ásgeir Örn Ásgeirsson og Tinna Karen Gunnarsdóttir
Georg Lúðvíksson fyrir miðju, frá vinstri Viggó Ásgeirsson, Ásgeir Örn Ásgeirsson og Tinna Karen Gunnarsdóttir
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur selt heimilisfjármálahugbúnað sinn til tólf landa, nú síðast til Póllands. Þannig bættust í hópinn um það bil þrjár milljónir nýrra notenda.

Meniga er markaðsleiðandi í þróun og sölu heimilisfjármálalausna fyrir banka og fjármálafyrirtæki og lausnir félagsins eru nú aðgengilegar í gegnum sjö netbanka víðs vegar um heiminn. Þannig telur notendahópur heimisfjármálahugbúnaðarins nú um það bil tíu milljónir manna.

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, er að vonum ánægður með árangurinn. „Við höfum vaxið mjög hratt, sem er ánægjulegt.Í fyrra myndi ég segja að við hefðum breyst úr sprotafyrirtæki í stöðugan rekstur,“ segir Georg.

Tekjur fyrirtæksins voru 400 milljónir í fyrra.

„Við sjáum fram á að tvöfalda þessa upphæð í ár. Samhliða þessu höfum við svo verið að bæta við okkur starfsfólki. Þeir eru um 45 hjá okkur núna. Það er þreföldun á einu og hálfu ári,“ segir Georg jafnframt.

„Við gerum ráð fyrir að verða um það bil 70 starfsmenn hjá Meniga í lok þessa árs, og við sjáum áframhaldandi hraðan vöxt ef áætlanir ganga eftir,“ bætir Georg við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×