Innlent

Vatn lak í málverkageymslu Íslandsbanka

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sendibílsstjóri sést hér bera eitt listaverkanna út úr geymslunni
Sendibílsstjóri sést hér bera eitt listaverkanna út úr geymslunni Fréttablaðið/Stefán
„Það er erfitt að gera sér grein fyrir tjóni, með hluti eins og listaverk. Tjónið getur komið í ljós eftir á, en við fyrstu sýn virtist þetta vera minni háttar. Frá okkar bæjardyrum séð, þá gekk þetta vel en hvað næstu dagar bera í skauti sér er svo annað mál,“ segir Rúnar Helgason, aðstoðarvarðstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, en listaverkageymsla Íslandsbanka á Reykjavíkurvegi 60 í Hafnarfirði varð fyrir vatnstjóni í gærkvöld.

„Þetta var kalt vatn sem lak af efri hæð og niður í þessa geymslu. Við brugðumst fljótt við og settum undir lekann þar sem mest var. Þannig björguðum við heilum helling,“ segir Rúnar jafnframt.

Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir vatnstjón hafa orðið á hæðinni fyrir ofan og við það hafi myndast raki í geymslunni. „Það var ákveðið að flytja málverkin strax í burtu.“

Spurð hvort málverkin hafi orðið fyrir skemmdum segir Guðný að það verði skoðað í framhaldinu.

„En það var allavega ekki mikið og í mesta lagi einhverjar rakaskemmdir. Þetta leit að minnsta kosti ekki illa út.“

Guðný segir að ekki sé gefið upp hversu mörg verk voru í geymslunni eða hvert þau voru flutt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×