Innlent

Alvarleg hætta var við olíuleka

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Olíu þarf til að knýja búnað félagsins sem selur aðgang að Þríhnúkagígi.
Olíu þarf til að knýja búnað félagsins sem selur aðgang að Þríhnúkagígi. Fréttablaðið/GVa
Umhverfisráð Hafnarfjarðar vill að Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri beiti sér fyrir samráði sveitarfélaga um vatnsverndarmál á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn umhverfisráðsins voru vatnsból í „alvarlegri mengunarhættu“ þegar 600 lítrar af olíu láku úr tanki sem flytja átti að Þríhnúkagíg 8. maí.

„Aðgerðir til hreinsunar hófust tveimur tímum seinna, á þeim tíma hefur töluvert magn lekið niður í hraunið og ekki náðst upp,“ segir umhverfisráðið. Ekki hafi náðst að hreinsa upp 100 til 150 lítra.

„Nokkur slys hafa verið á vatnsverndarsvæðinu þar sem töluvert magn olíu hefur lekið niður. Einnig er mikið um olíuflutninga á Suðurlandsvegi sem er á fjarsvæði vatnsverndarinnar,“ segir umhverfisráðið, sem kveður um mikla hagsmuni að ræða fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Gera þurfi samræmdar viðbragðsáætlanir, setja skýrar reglur um farartæki og loftför sem fara yfir vatnsverndarsvæðið og að gera kröfur á Vegagerðina um frágang á vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×