Innlent

Kaltjón bænda sagt sláandi

Svavar Hávarðsson skrifar
Þessi mynd var tekin í Vallakoti í Reykjadal, sem er skammt fyrir utan Húsavík, í gær.
Þessi mynd var tekin í Vallakoti í Reykjadal, sem er skammt fyrir utan Húsavík, í gær. Mynd/Pjetur
Fyrir liggur að fjöldi bænda á Norður- og Austurlandi hefur orðið fyrir milljónatjóni vegna kalskemmda eftir harðan vetur og kalt vor.

Í samantekt Ráðgjafanefndar landbúnaðarins (RML) kemur fram að 269 býli frá Ísafjarðardjúpi og austur á land hafa orðið fyrir stórfelldu tjóni. Yfir 5.000 hektarar lands eru skemmdir. Fjárhagslegt tjón hleypur á hundruðum milljóna.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir stöðuna miklu verri en samtökin töldu. Sindri segir mál manna að kalskemmdir séu verri en þekkt hefur verið um nokkuð langan tíma.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra sagði á Alþingi í gær að það væri alveg ljóst að óhugsandi væri að ríkissjóður myndi bæta allt það tjón sem orðið hefur vegna kals og annarra skemmda. Til þess eru engir fjármunir til, sagði ráðherra.

„Ríkissjóður mun koma að þessum málum en ég bið þingheim að gera sér ljóst að þær aðgerðir allar þurfa að taka mið af stöðu ríkissjóðs.“

Sindri Sigurgeirsson
Einstakir bændur hafa því orðið fyrir milljónatjóni, og á þá eftir að taka tillit til þess að girðingar hafa orðið illa úti á stórum svæðum sem eykur enn á vanda fjölmargra bænda á þessu svæði. Þá hafa bændur þurft að kaupa fóður fyrir umtalsverða fjármuni.

Ráðunautar RML hafa heimsótt flesta þá bændur sem þess hafa óskað og veitt þeim viðeigandi ráðgjöf.

Ástandið er verst í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem 100 býli hafa orðið fyrir stórfelldu tjóni, en þar eru 1.900 hektarar lands skemmdir og öll sýslan undirlögð í kali.

Til að setja þetta í samhengi við hvað það kostar að endurrækta einn hektara þá er það að lágmarki 100 þúsund krónur við bestu aðstæður fyrir utan áburðarkostnað. Kostnaðurinn við endurræktun 5.210 hektara er því að lágmarki 520 milljónir, er niðurstaða RML.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×