Innlent

Bættar samgöngur gætu aukið vinsældir Breiðholts

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Formaður Félags fasteignasala segir bættar almenningssamgöngur eitt veigamesta atriðið til að gera Breiðholt að vinsælla hverfi.
Formaður Félags fasteignasala segir bættar almenningssamgöngur eitt veigamesta atriðið til að gera Breiðholt að vinsælla hverfi. FRÉTTABLAÐIÐ / GVA

Fasteignaverð í Breiðholti er með því lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Framboð á íbúðum þar er mikið og fjarlægð frá miðju borgarinnar töluverð.

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir að bættar almenningssamgöngur væru veigamikið atriði til að auka áhuga fólks á íbúðarkaupum í Breiðholtinu.

„Ef fólk fær ódýrari og mun skjótari almenningssamgöngur hefði það áhrif á að það sæi sér hag í að búa þarna,“ segir hún. „Ég tel einnig að vinsældir hverfisins fari mikið eftir því hvernig borgaryfirvöldum tekst til við að gera hverfið aðlaðandi og gott fyrir þennan mikla íbúafjölda.“

Hún undirstrikar þó að það sé engin leið að spá fyrir um hvernig svæðið muni þróast.

„Hverfið er á fallegum stað og Breiðhyltingar búa yfir og njóta mikilla lífsgæða eins og útivistarsvæða og náttúrufegurðar,“ segir hún og bendir einnig á að framboð á íbúðum í hverfum 111 og 109 hafi verið mikið og það lækki sjálfkrafa fasteignaverð. Svo megi ekki gleyma því heimslögmáli að eftir því sem fjær dregur miðju stórborga, þeim mun lægra sé fasteignaverðið.

Breiðholt var óvinsælasta hverfi borgarinnar árið 2007 og þar hefur ekki orðið breyting á þar sem hlutfallslega kjósa fæstir íbúar Reykjavíkur að búa í Breiðholti miðað við önnur hverfi og af rúmlega 20.000 íbúum Breiðholts kjósa einungis 45 prósent að búa þar ef þeir fengju að velja.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun á húsnæðis- og búsetuóskum borgarbúa 2013 sem unnin var fyrir rannsóknarhópinn Betri borgarbragur og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur og notuð var til hliðsjónar við framkvæmd aðalskipulags borgarinnar og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×