Innlent

Hrotti ákærður á ný fyrir hótanir og ofbeldi

Stígur Helgason skrifar
Öll brotin sem Lárusi eru gefin að sök munu hafa verið framin í Borgarnesi.
Öll brotin sem Lárusi eru gefin að sök munu hafa verið framin í Borgarnesi. Fréttablaðið/Pjetur

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Lárusi Má Hermannssyni, 43 ára, fyrir alvarlegar hótanir og ofbeldi. Hæstiréttur dæmdi Lárus í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir hrottafengna árás á barnsmóður sína árið 2006.

Í þetta skipti eru Lárusi gefin að sök brot sem samkvæmt ákæru voru öll framin í Borgarnesi í fyrra. Í fyrsta lagi er hann ákærður fyrir hótun með því að hafa tekið á móti þremur mönnum á heimili sínu í ágúst og beint að þeim óhlöðnum riffli. Þá er hann ákærður fyrir vopnalagabrot með því að eiga riffilinn. Það mál tengdist deilum hans við fyrrverandi unnustu og nýjan kærasta hennar.

Lárus er einnig ákærður fyrir að senda unnustunni fyrrverandi ítrekað hótanir í sms-skilaboðum um að hann mundi vinna hinum nýja kærasta mein. Að síðustu er hann ákærður fyrir að kýla lögreglumann í andlitið á lögreglustöðinni í Borgarnesi og hóta öðrum lífláti.

Lúbarði barnsmóðurina með felgulykli

Í ágúst 2005 barði Lárus barnsmóður sína og fyrrverandi sambýliskonu ítrekað með felgulykli í höfuðið vegna afbrýðisemi. Konan slapp án alvarlegra áverka en í dómnum segir að það hafi verið mesta mildi að ekki hlaust alvarlegri skaði af áverkunum.

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi Lárus í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps en Hæstiréttur mildaði dóminn í tvö og hálft ár, þar sem ekki væri sannað að Lárus hefði haft ásetning til að bana konunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×