Fótbolti

Förum í leikinn fullir sjálfstrausts

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu ætlar sér sigur gegn því slóvenska á Laugardalsvellinum í kvöld
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu ætlar sér sigur gegn því slóvenska á Laugardalsvellinum í kvöld Fréttablaðið / Vilhelm

Íslenska landsliðið í knattspyrnu mætir því slóvenska á Laugardalsvelli í undankeppni heimsmeistaramótsins í Brasilíu sem fram fer á næsta árið.

Ísland hefur níu stig í öðru sæti eftir fimm umferðir en Slóvenar eru í neðsta sæti með þrjú stig. Liðin áttust við ytra í mars fyrr á þessu ári þar sem íslenska liðið vann frækinn sigur, 2-1, en Ísland getur með sigri, annað kvöld, komist í efsta sæti riðilsins, tímabundið í það minnsta.

Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins, telur að leikurinn á morgun verði mun erfiðari en í Slóveníu. „Ég get ekki kvartað yfir neinu nema kannski veðrinu að undanförnu, en við þurftum að flytja eina æfingu inn vegna veðurs,“ sagði Lars Lagerbäck á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í gær. Slóvenar unnu fínan sigur á Tyrkjum, 2-0, í vináttuleik í síðustu viku. „Þeir eru mikið mun sterkari í dag en þegar við mættum þeim í mars. Þetta verður því gríðarlega erfiður leikur en okkar leikmenn eru samt sem áður í frábæru standi og ég hef það mikla trú á þeim að ég býst alltaf við sigri.“

Gylfi Þór Sigurðsson verður fjarri góðu gamni í leiknum annað kvöld en leikmaðurinn tekur út leikbann.

„Það er alltaf slæmt að missa leikmann eins og Gylfa úr liðinu en það getur samt sem áður skapast ákveðið svigrúm fyrir breytingar á liðsuppstillingu okkar með brotthvarfi hans.“

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, telur að liðið eigi ágæta möguleika gegn slóvenska liðinu annað kvöld. „Andinn í hópnum er fínn eins og alltaf og menn vilja gera vel,“ segir Aron Einar.

Það má skynja mikla eftirvæntingu frá íslensku þjóðinni fyrir leikinn.

„Við höfum gríðarlega mikla trú á því sem við erum að gera og setjum bara þessa pressu á okkur sjálfir. Það er samt mikilvægt að hugsa bara um einn leik í einu og við munum mæta fullir sjálfstrausts á morgun,“ segir Aron Einar.

„Við finnum að það er mikill meðbyr með okkur,“ segir Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins.

„Við erum allir til í slaginn og vonumst eftir góðum úrslitum. Ef það hefst er liðið komið í hrikalega góð mál í riðlinum.“

Leikurinn hefst kl 19.15 á Laugardalsvelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×