Innlent

Náttúruperlur undir gríðarlegu álagi

Erlendir ferðamenn hafa fjölmennt í þjóðgarðinn á Þingvöllum undanfarna daga.
Erlendir ferðamenn hafa fjölmennt í þjóðgarðinn á Þingvöllum undanfarna daga. mynd/Einar Sæmundssen

„Það er mikilvægt að byrja strax að taka ákvarðanir um hvaða svæði þarf að einblína á. Hvar við viljum byggja upp innviði, eða halda þeim við, og hvar við viljum hreinlega takmarka umferð ferðamanna í einhvern tíma,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Sífellt fleiri láta síaukna umferð ferðamanna um helstu náttúruperlur þjóðarinnar sig varða. Ekki alls fyrir löngu hélt Landsvernd tvö málþing, eitt í Mývatnssveit og annað í Reykjavík, um ferðamennsku á jarðhitasvæðum en umræðurnar leiddust út í ferðamennsku almennt. Fregnir af bágu ástandi svæða eins og við Goðafoss, Þingvelli, Dimmuborgir, Seljalandsfoss og fleiri þekktar náttúruperlur hafa orðið til þess að þessi málaflokkur hefur fengið aukna athygli. Enda engin vanþörf þar á.

Hjalti J. Guðmundsson, teymisstjóri náttúrusvæða hjá Umhverfisstofnun, bendir á að heilmiklar framkvæmdir séu í gangi víðs vegar um landið til að sporna við þessari þróun. „Við erum að gera heilmikið. 2013 er í raun og veru stærsta framkvæmdaár okkar á friðlýstum svæðum í mjög langan tíma, ef ekki frá upphafi. Það er mikilvægt að þessi svæði missi ekki verndargildi sitt.“

Hjalti telur að um 150 milljónum sé varið í uppbyggingu svæða sem hafa illa orðið úti, meðal annars vegna mikillar umferðar ferðamanna. En vinnan er ekki öll unnin. „Það er ljóst að það þarf að verja miklu meiri fjármunum í byggingu á innviðum, aðstöðu eins og útsýnispöllum, göngustígum, salernisaðstöðum og þar fram eftir götunum. Þannig getum við stjórnað umferð ferðamanna um svæðin. Svo bætir það gráu ofan á svart að túrisminn stendur lengur yfir núna en hann hefur áður gert. Til að mynda á vorin og haustin, þegar landið og gróðurinn eru hvað viðkvæmust,“ sagði Hjalti jafnframt.

Einar Sæmundsen, fræðslufulltrúi Þingvalla, sagði í samtali við fréttastofu 365 að örtröð hefði þegar myndast á Þingvöllum, þrátt fyrir veðurfar. „Það er hér örtröð af ferðamönnum og við erum að gera okkar besta, en við erum þannig fjársvelt að okkur vantar virkilega stórt framlag til að ná að anna öllu þessu fólki. Ég hef til dæmis ekkert bætt við starfsfólki fyrir sumarið nema í fræðslumiðstöðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×