Innlent

Allir hressir í rigningunni í Reykjavík

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Heimafólk og ferðamenn arka yfir Lækjargötu í rigningunni í gær.
Heimafólk og ferðamenn arka yfir Lækjargötu í rigningunni í gær. Fréttablaðið/Vilhelm

Skólakrakkar og ferðamenn voru áberandi í borgarlandslaginu í slagviðrinu í gær. Ferðafólkið sagði regnið ekkert koma á óvart og börnin héldu sínu striki kampakát.

„Við erum nú alveg vön þessu því við erum frá Wales og þar rignir ansi mikið,“ sögðu þau Hywel Mallet og Samantha Harpet sem spókuðu sig létt í bragði í miðbæ Reykjavíkur.

Erlendu ferðamennirnir í höfuðborginni í gær virtust flestir vera af skemmtiferðaskipunum tveimur sem lágu við festar í Sundahöfn. Þeir virtust lítið láta rok og rigningu slá sig út af laginu, sögðust hafa átt von á slíkum trakteringum, bjuggu sig einfaldlega eftir veðri og fóru á stúfana.

Annar áberandi hópur var börn á lokasprettinum í skólanum fyrir frí. Hressir krakkar úr þriðja og fjórða bekk Breiðagerðisskóla gengu um Elliðaárdal og könnuðu leyndardóma hans. Í Viðey skoðuðu krakkar í sjötta bekk í Laugarnesskóla sig um og létu feiknavel af sér við komuna í land.

Börn í þriðja og fjórða bekk í Breiðagerðisskóla voru að koma úr árlegri vettvangsferð í Elliðaárdal.
Samantha og Hywel langaði til Noregs og fengu Ísland í kaupbæti í tveggja vikna siglingu á skemmtiferðaskipi.
Krakkarnir í sjötta bekk í Laugarnesskóla létu ekki dálítinn vind á Sundunum fæla sig frá hressandi siglingu í Viðey.
Þessar ágætu konur, sem komu með skemmtiferðaskipi frá Englandi, sögðu rigninguna hér síst koma þeim í opna skjöldu.
Skortur á hlífðarfatnaði plagaði ekki þetta par í Lækjargötu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×