Innlent

Aðalskipulag klárað í sátt í næstu viku

Þórunn skrifar
Þetta er í fyrsta skipti sem aðalskipulag er unnið í sátt allra flokka. Meðal þess sem kveðið verður á um er að ekki skuli rísa háhýsi í miðbænum.
Þetta er í fyrsta skipti sem aðalskipulag er unnið í sátt allra flokka. Meðal þess sem kveðið verður á um er að ekki skuli rísa háhýsi í miðbænum. fréttablaðið/anton

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar verður samþykkt úr borgarstjórn og sett í auglýsingu í næstu viku. Einhugur er um málið í borgarstjórn, enda hafa allir flokkar komið að skipulagsvinnunni.

Nýja aðalskipulagið er það fyrsta í sögu Reykjavíkurborgar sem er unnið í sátt allra flokka. „Á vinnslutímanum hafa verið mjög margir meirihlutar eins og fólk veit, margir borgarstjórar og margir formenn skipulagsráðs, svo það hafa mjög margir komið að þessu,“ segir Dagur.

„Alltaf hefur þetta haldið sjó og kúrsinn verið sá sami. Þetta aðalskipulag hefur að miklu leyti verið unnið undir forystu Sjálfstæðisflokksins, það var byrjað á þessu árið 2006. Allir flokkar hafa komið að þessu og þrír flokkar hafa stýrt þessu,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. „Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir hætti að stýra þessu og Svandís Svavarsdóttir tók við varð engin stefnubreyting, það er auðvitað mjög athyglisvert.“

Bæði Gísli Marteinn og Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, kynntu málið á fundi með almenningi í gær. Gísli Marteinn og Dagur eru sammála um að með þessari aðferð hafi orðið til betra og vandaðra skipulag. „Að minnsta kosti er þetta eins vandlega unnið og nokkuð aðalskipulag hefur verið í Reykjavík og kannski ekkert vanþörf á. Það hefur ýmislegt farið öðruvísi en fólk ætlaði og hér er verið að reyna að læra af ýmsu sem fór úrskeiðis á árunum fyrir hrun. Þá sáum við gríðarlega mikil plön um uppbyggingu sem aldrei varð,“ segir Dagur.

Nú sé hins vegar reynt að sníða stakk eftir vexti. „Eins og síðasta ríkisstjórn brenndi sig á með stjórnarskrárbreytingar er þannig með svona stór mál að það er farsælast að reyna að fá alla að borðinu og vinna í sátt, jafnvel þótt allir þurfi að gefa aðeins eftir,“ segir Gísli. Haldnir verða aukafundir í bæði umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði á mánudag til þess að hægt verði að láta borgarstjórn afgreiða málið á fundi sínum á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×