Innlent

Þungar áhyggjur af síldarstofni

shá skrifar
Síld- og makrílveiðar eru næstu verkefni uppsjávarveiðiflotans.
Síld- og makrílveiðar eru næstu verkefni uppsjávarveiðiflotans. fréttablaðið/óskar

Íslendingar lýsa yfir áhyggjum vegna aukinna veiða Færeyinga úr norsk-íslenska síldarstofninum. Tvíhliða fundur Íslands og Færeyja var haldinn á mánudag vegna veiða á síld á árinu 2013.

Á fundinum, sem haldinn var að ósk Færeyinga, áréttuðu fulltrúar Íslands afstöðu sem komið hafði verið á framfæri í bréfi til færeyskra stjórnvalda: að þreföldun hlutdeildar Færeyinga sé óviðunandi fyrir íslenska hagsmuni. Færeyingar gerðust ekki aðilar að samkomulagi strandríkja í janúar og settu sér einhliða kvóta upp á 105.000 lestir. Það svarar til 17% af heildarveiði ársins sem er 619.000 lestir, samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Þetta er þreföldun hlutdeildar Færeyinga.

Til samanburðar er hlutur Íslands 14,51% og nema heimildir íslenskra skipa tæplega 90.000 lestum. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur minnkað um meira en helming á síðustu fjórum árum, en nýliðun hefur verið afar slök. Samkvæmt gildandi aflareglu nálgast stærð hrygningarstofnsins þau gátmörk þar sem draga þarf verulega úr veiðiálagi til að forða hruni í stofninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×