Innlent

Króatarnir ekki sjálfkrafa til Íslands með ESB-aðild

Innganga í Evrópusambandið þýðir ekki að fólkið geti komið og hafið líf hér á landi.
Innganga í Evrópusambandið þýðir ekki að fólkið geti komið og hafið líf hér á landi. Mynd/ Vilhelm

Króatarnir sem synjað var um landvistarleyfi hérlendis og sendir utan í fyrradag geta ekki komið til Íslandsdvalar og starfað hér um leið og land þeirra verður formlegur aðili að Evrópusambandinu.

„Króatía verður ekki sjálfkrafa aðili að EES-samningnum við aðild að ESB hinn 1. júlí næstkomandi heldur þarf að semja um skilmála og skilyrði fyrir aðild að EES,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins, og upplýsir að gera megi ráð fyrir að þessu ferli ljúki fyrir lok þessa árs.

„Þess skal og getið að gera má ráð fyrir að samningurinn muni, í líkingu við fyrri samninga af sama tagi, innihalda ákvæði um heimild íslenskra stjórnvalda til að fresta tímabundið gildistöku regluverks EES um frjálsa för fólks. Slíkt ákvæði er einnig að finna í samningi Króatíu um aðild að ESB,“ segir utanríkisráðuneytið.

Þarna er vísað í undanþáguákvæði sem Ísland nýtti til að fresta því að Búlgarar og Rúmenar fengju atvinnuréttindi hér við inngöngu þessara landa í Evrópusambandið í ársbyrjun 2007. Slík undanþága getur gilt í allt að sjö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×